8/27/2004

Mjá. Kannski maður ætti að segja eitthvað? Ég veit ég fæddist með engar tennur. Smátt og smátt fóru þær að týnast upp úr tannholdinu og urðu að tanngarði. Þá var ég lítill með barnatennur, ég var svo lágvaxinn að ég sá yfirleitt upp í nefin á fólkinu í kringum mig. Fólk stærri en ég var yfirleitt með hár í nefinu. Mér fannst þetta mikil og ógeðsleg fötlun. Svo missti ég barnatennurnar og fékk fullorðinstennur. Grunnskólatannlæknirinn minn sagði að ég væri með bestu tennurnar í skólanum. Ég var einskonar tann-undrabarn. Hver einasta tönn skagaði rétt og fallega upp. Öll mín menntaskólaár var ég fullviss um að ég gæti orðið hin ágætasta tannfyrirsæta. Ég var aldrey með spangir og engar fyllingar. Ef ég hefði brosað aðeins oftar og gleiðar, hefði ég örugglega fengið margar píkur út á það. En onei, ég er með of þunna efrivör til að brosa. Eftir menntó fékk ég svo tannpínu, fór til tannlæknis sem fannst ég líka vera veltenntur, en fann þó fimm skemmdir. Ég hafði ekki notað tannþráð né burstað nógu vel, ég hafði drukkið kók og látið sýru seytla um góminn. Ég hafði vanrækt kjaftinn og syndgað gagnvart tönnum mínum. Þetta endaði á því að hann stakk mig nokkrum sinnum með nálum í munninn, boraði mig, skóf og veitti mér að lokum aflátsbréf sem kostaði margan skildinginn. Nú er ég ekki lengur með hátt tann-sjálfsálit og finnst saga tanngarðsins til dæmis um glötuð tækifæri í lífinu yfirhöfuð. Þá meina ég sko að tennurnar merkja = hæfileikar. Því nú eru tennur mínar fullvaxta og lítið hægt að gera annað en halda þeim við einhvernveginn. USSu suss! Ég hef mikið hugsað undanfarið um eitt það fallegasta sem ég hef séð. Ég fór að týna söl með Heru og pabba ekki alls fyrir löngu. Þá var ég að plokka brúnrauðan þara uppúr fjörunni á meðal kuðunga og marlúsa. Ég leit upp og sá hvar Hera hafði lagst útaf á tveggjamannhæðaháu grjóti sem var þakið þykku þarateppi, það var eins og steinninn væri með brúnleitt permanetthár úr sjóþangi. Í þessu öllu lá hún kolsvört, velti sér um á bakinu og gaf frá sér beljulegar nöldurstunur og hélt sennilega sjálf að hún væri allsber hafmey. Sólin skein á hana og fýlar görguðu. Hvítar sjófrussur flugu hægt um loftið og ég sjálfur varð meyr í hjarta mínu af ást. Einmitt.

Bloggsafn