10/19/2004

Og hvað sem mamma segir, en hún segir að köngurlær séu miklu hræddari við mig en ég við þær, þá trúi ég henni ekki. Ég get hinsvegar vel trúað því að læknar hlæji þegar sjúklingar prumpa á sjúkrahúsum. En eins og svo margt annað, þá er það ekki í frásögur færandi. Ég hef verið hræddur við köngurlær frá því ég man eftir mér. 4ra ára sá ég köngurló hlaupa undir sófa, svo ég hoppaði upp á sófann og þorði ekki að hreyfa mig drykklanga stund. 5 ára sá ég líka köngurló á gangstétt, hún var tvo faðma frá mér, lítil og feit. Ég bograði yfir henni og glápti, að því ég hélt, í öruggri fjarlægð. Svo tók hún á rás í átt að mér eins og vindurinn hefði feykt henni, svo ég hljóp öskrandi í burtu og eftir það vissi ég að þessi kvikindi búa yfir allskonar klækjum til að nappa mann. Hræðilegasta minning mín er þegar ég var skikkaður til að þrífa herbergið mitt, þá á unglingsaldri, dró fram rúmið og uppgötvaði að úti í horni, ekki svo langt frá þeim stað sem koddi minn og haus hvíldu, var heilt köngurlóarbú. Þar spásseruðu hundrað pínkuponsulitlar köngulósur. Ég drap þær með hárspreyinu mínu. Með hroll frá rassi upp í hnakka horfði ég á þær engjast um og drepast kvalarfullum dauða. Áðan settist ég út í gróðurhús við borð undir vínrauðum dúk. Þar var dimmt og fyrir utan napur vindur, þar sem veðrið er nú ekki alveg með sjálfu sér þessa dagana ha! Þó náðu götuljósin að kasta birtu á borðdúkinn í gegnum trén svo þar ruggðu laufblaðaskuggar. Þá gerðist það! Ég sá stóra köngurló á miðju borðinu fikra sig í áttina að mér, svartar útlínur hennar í skímunni, löpp fyrir löpp. Hún var komin alveg upp að borðröndinni, tilbúin að detta í klofið á mér. Þá ákvað ég að anda á hana. Í kuldanum blés ég hvítum gufustrók út úr munninum og hún baðaðist í honum. Kvikindið fraus, hreyfði sig ekki, sneri hikandi við og hypjaði sig frá mér. Frá mér, þessum ógurlega dreka sem spúir hvítum andadrætti. Og þá skildist mér, að hún var hrædd. NÝTT!!! NÝTT!!! NÝTT!!! Sammerkingahornið: Kónguló --> göngurófa, köngurváfa, köngurvofa. Húrra!

Bloggsafn