10/29/2004

Svo er sagt að þegar brennisteinsfnykur finnst upp úr þurru, þá megi gera ráð fyrir því að reiður draugur sé nærstaddur. Vissulega má það vera þannig, en ég tel mun líklegra að draugurinn hafi einfaldlega prumpað og orðið reiður yfir sinni eigin fýlu. Maður verður að gera sér grein fyrir orsakasamhengi.

Mér rennur svosum ekki blóð til neinnar skyldu, og skammast mín því ekkert fyrir að hafa vanrækt þetta blogg í 11 daga. Ég gef saur í allt blogg, þetta er lágkúrulegt fyrirbæri! Hinsvegar þykir mér afskaplega vænt um þig og að þú skulir nenna að lesa þetta. Ekki skil ég neitt í þér.

Jæja, en ég verð nú að viðurkenna að gamla góða Ísland virðist ekki bjóða upp á jafn frásögufærandi uppákomur og hið nýja vonda Rússland. Í gær las ég í bókinni ''Rauða hættan'' eftir Þórberg Þórðarson. Þar minntist hann á rauða torgið og sagði m.a.: ''Rauða torgið er aflangt svæði, steinlagt, sem liggur frá norðaustri til suðvesturs. Það er 285 faðma mína á lengd; það er álíka langt og frá pósthússhorninu í Reykjavík og upp að Klapparstíg. En á breidd er það um 70 faðma eða næstum eins og frá Hverfisgötunni í Reykjavík og upp að Grettisgötu".

Jamm, en þegar ég stóð og horfði yfir rauða torgið, sem er í raun grátt eins og fiskroð, langaði mig til að finna nið aldanna. Svo ég reyndi að ímynda mér hvernig það var þegar skriðdrekarnir völtuðu yfir stúdentamótmælin og klesstu undir járnum sér hausa og búka fólks, hvernig blóðið hefði kannski seytlað inn á milli hellusteinanna, og sætar stelpur kramdar og röndóttar eftir skriðdrekabeltin. Ég varð svo gagntekinn af sögu þessa torgs, að ég fann lykt af dauða og heyrði í kveinstöfum þúsund manns. Ég varð reiður yfir illsku stjórnvalda og fann að í hjarta mér sólaði hvirfilbylur. En þegar ég reyndi að fá samferðamann minn til að upplifa sömu mannkynssögu og ég, þá upplýsti hann mig um að þetta hafi í raun gerst á torgi hins himneska friðar, en ekki hér. Þá hurfu hörmungarnar mér sýnum í einni svipan, dúnalogn datt á í hjartanu og ég gerði mér grein fyrir því hversu gífurleg vinna það hefur verið að leggja allar þessar hellur maður!

Bloggsafn