11/05/2004

Ég fór aftur í almenningssturtu áðan og var búinn að gera allt nema þurrka mér og var á leiðinni til handklæðisins. Það var samt einhver skrítin tilfinning í rassinum mínum, aðallega rasskinnunum sem einhvernvegin nudduðust utan í hvora aðra, ég allavega fann fyrir núning. Ég athugaði þetta með því að stinga einum putta þangað. Hafði semsagt gleymst að skola sápunni burt. Ég neyddist því að ganga aftur til sturtu minnar og klára þetta alminnilega. Bara svo það sé á hreinu.

11/02/2004

Nú ætla ég að veita þér ærleg ráð. Annað þeirra snýr að sjálfsblekkingu, en hitt að mannlegum samskiptum í fjölmenni. Við sem búum í borgum þurfum stundum að drekka vatn beint úr krönum og vöskum, en sumir þeirra eru grútskítugir. Ef þú hræðist skítuga vaska, gerðu þá eins og ég; Einusinni sá ég vask sem var fullur af ryði, þarna höfðu skítugir verkamenn þvegið sér um hendurnar, snýtt sér ofan í og jafnvel klippt neglur sínar. En þó vaskurinn sé drullugur getur vatnið sem bunar úr krananum verið tært. Það eina sem maður þarf semsagt að gera, er að loka augunum, halla vörunum undir bununa og ímynda sér að maður sé staddur uppi í sveit, í góðu veðri að drekka úr skoppandi lækjarsprænu, sötrandi hið eilífa vatn á meðan brúnrauður jaðrakani tístir "Vaddúdí!!". Svo lokar maður munninum og opnar augun. (Í eftirfarandi texta mun ég reyna að vera fyndinn, en þar sem Steinn Linnet hefur sagt mér að ég geti ekki verið fyndinn nema ég sé það óvart, býst ég við að þetta verði tilgerð): Seinna ráðið sem ég vildi veita þér er það hvernig skal troða sér í gegnum mannþröng. Fyrst skal reyna að smjúga á milli fólksins, beygja sig í hnjám og gera sig lítinn. Ef það gengur ekki, skal ýta léttilega í öxl eða bak þess sem maður vill að færi sig. Ef manneskjan stendur föst fyrir eins og fíll í mýrlendi, skal banka í hana og stugga við. Nú er allt reynt sem kurteist er, þá skal setja öxlina fyrir sig og anda djúpt inn, grípa undir klof manneskjunnar svo lófi nemi við kynfæri og lyfta henni upp. Þá sporðreisist líkaminn og um leið skal troðast blygðunarlaust áfram og anda út. Þá ætti manneskjan að vera úr vegi.

Bloggsafn