11/27/2004

Sú var tíðin að Hera litla tók mark á mér. En nú er ég bara bull í hennar augum. Ég man að einusinni hafði hún blygðunarkennd og kunni að skammst sín. Í dag er því öðruvísi farið. Í gamla daga ef ég skammaði hana lagði hún skottið á milli lappanna og horfði undirleit á mig þar til hún bræddi mitt reiða hjarta og ég byrjaði að elska hana á ný. Ef hún stalst í ruslatunnuna í eldhúsinu að næturþeli, þá þorði hún ekki fyrir sitt litla líf að stinga snoppunni þangað inn daginn eftir, henni óaði við að sjá vettvang glæpsins og hvaða ósköpum hún hafði ollið. Þá hafði hún gert það sko, að tosa ruslapokann undan vaskinum, tæta hann í sundur og éta allt sem ætilegt var. Hún vissi nákvæmlega hvað var synd, og hvað var dyggð. Maður þurfti ekki annað en nefna orðið "rusl", þá fór hún í steik og faldi andlitið undir loppunum. En því er ekki að skipta í dag, ónei. Hún er orðin spillt gömul kerling sem kallar ekkert ömmu sína. Hún veit nákvæmlega hversu langt hún má ganga og fetar jafnan á manns fínustu taugum. Í gær t.d. sat ég við sjónvarpið og heyrði Heru trampa niður stigann sem liggur í kjallarann. Svo leið og beið og Hera trampaði upp stigann með smjattandi munn. Þá vissi ég strax hvað hafði átt sér stað: hún hafði étið súkkúlaðið mitt! Ég þaut því upp, skipaði henni að koma með mér niður og ætlaði sko að húðskamma hana. Niðri benti ég með vísifringri á diskinn sem súkkúlaðið hafði legið á og öskraði "HVAR ER SÚKKÚLAÐIÐ?!" Hera mændi bara á mig með gleðiblik í augum og dillaði skottinu. Því næst fann ég nammibréfið í tætlum á gólfinu, tók það upp, otaði framan í hana og öskraði enn hærra "HVAÐ Á ÞETTA AÐ ÞÝÐA HA?! AÐ ÉTA BARA SÚKKÚLAÐI SEM ÞÚ ÁTT EKKI?!". En það var alltaf sama sagan, hún tók ekkert mark á mér frekar en áttræð kona tæki mark á fimm ára strákling með svefngalsa. Fram og aftur sveiflaðist skottið! Já, Hera er orðin gömul. Ég verð að sætta mig við að hún er eldri en ég og lífsreyndari, í þeim skilningi að vera hundur. Hún er með gigt, sí-nöldrandi og þrjósk eins og jarðaber. Núna rétt áðan hleypti ég henni út í garð, en hún sneri ekki aftur. Ég kallaði út í myrkrið "Hera bera, komm" en ekkert svar. Ég hljóp uppfyrir hús og út á götu til að sjá hvort hún væri nokkuð að fremja sjálfsmorð. En hún var bara týnd og tröllum gefin. Ég smellti mér því í skóna og þræddi garða nágrannanna, því hún er vís til að standa á beit í fuglafóðri, ætluðu svöngum þröstum. En hvergi var Hera. Þá skundaði ég í öngum mínum út á götu aftur, upp í Hjallaselið og skimaði hausnum í allar áttir. Jú þarna var hún, fjarska langt í burtu. Ég kom auga á gigtveika rassinn hennar sveiflast til og frá þar sem hún tiplaði áfram úti á miðri götu. Hún var á leiðinni uppí Seljahlíð, sem er húsaþyrping bleikra elliheimila. Fyrir mér má hún alveg innrita sig þar. Þá fengi hún að minnsta kosti heimilishjálp, kæruleysispillur og heilt rúm til að sofa í.

11/23/2004

Hefur þú einhverntíman spáð í rúmdýnum? Þetta eru fyrirbæri sem við liggjum á þegar við sofum og eru andstæðar sængum. Sæng er eitthvað sem þú elskar og dáir, á meðan dýnan undir þér fær háðulega og niðurlægjandi útreið. Þegar ég var lítill strákur og svipti laki af rúmi, þótti mér alltaf skrítið að sjá hve dýnan virtist eiga margt sameiginlegt landakortum. Það voru brún lönd út um allt, hæðalínur og pollalaga hringir út og suður. Á þeim tíma var auðvitað skynsamlegast að álykta sem svo, að fólk hafi pissað svona mikið undir og skapað þannig þessi kynjamynstur. Svo þegar ég komst til ögn meiri líkamlegs þroska breyttist fullvissa mín um hver væri sannleikurinn á bakvið dularfullu pissublettina. Því nú streymdi þvers og kruss ástarsafi úr mínu eineygða sverði og lá beinast við að álykta sem svo að blettirnir í rúmdýnunum væru fornir brundar. En þó fannst mér undarlegt hvursu stórir þeir voru, og undir hvaða kringumstæðum skjóta menn fullnægingum sínum út í horn? En nú, kominn til vits og ára, veit ég að þetta er auðvitað bara gamall sviti sem allskonar fólk hefur svitnað út úr sér, og blettirnir ná alla leið út í horn því fólk hefur svitnað á hausnum og e.t.v. slefað smá í leiðinni. En veltu því nú samt vandlega fyrir þér kæri lesandi, hvort þú sofir á notaðri dýnu eður ei. Því það gildir engin tvíhyggja hér. Ef þú þekkir ekki forsögu dýnu þinnar, gæti einhver fertugur karl með bumbu hafa átt hana. Þessi maður hefur alveg örugglega klórað sér í pungnum og nuddað svo súrlyktandi kynfærum sínum utan í dýnuna. Kannski hét hann Jón Bóndi, og hann hefur svitnað og slefað í svefni. Einhverntíman pissað undir. Haft samfarir við konu og hún skvett píkusafa út um allt, blandaðan sæði. Og hver veit nema hann hafi snýtt sér uppúr draumi. Og jafnvel kúkað undir!? Þú sérð að þetta er ekkert grín. En jæja, ef þér finnst gaman að hlusta á fertuga feita kellingu með háa og hvella rödd, tala við aðrar kerlingar sem drekka Grand Marnier og hlæja brussulega að kosssstulegum sögum, þá skaltu lesa sögur þýsku tannsmíðakellingarinnar. Hún er víst það heitasta í netheimum í dag. Sjálfum finnst mér hún fyndin, á sinn hátt.

11/21/2004

Ég fékk bréf frá Rússlandi í nótt. Ég fékk þetta umslag, og þegar ég opnaði umslagið birtist veskið hans pabba. Þetta var tákn í draumi. Veskið hans pabba er úr svörtu leðri, ílangt og með allskonar leynihólfum og göngum... Hvernig veit ég það? Ég hef ráfað þar um. Veskið hans pabba gleymdist semsagt í Rússlandi og var sent til mín, og þetta var ábending um að ég ætti að skrifta og fá syndaaflausn á blogginu mínu. Svo voru mál með vexti að þegar ég var ungur, svona 12-17 ára, hafði ég mjög takmarkaða innkomu peningalega séð. Ég fékk jú húsaskjól, næringu og allt sem ég þurfti og vasapeninga að auki. En einhverntíman fann ég fyrir svo miklum fjárhagslegum þrengslum, e.t.v. átti ég ekki fyrir vídeóspólu og blandi í poka, að ég tók mig til eina nóttina þegar allir voru farnir að sofa og læddist á tánum upp brakandi stiga. Uppúr kjallaranum og upp á miðhæðina, þar sem veskið hans pabba lá hreyfingalaust á kommóðu, í myrkrinu. Í minningunni var ég eins og kanína risin upp frá dauða, hokinn í baki með loppurnar dregnar upp að bringu. Þannig stal ég mínum fyrsta pening. Þetta voru svosem ekki mikil tímamót, enda höfðum við systir mín stundað það í mörg ár að leita uppi smápeninga hér og þar, og kannski í botninum á veskjum foreldra okkar. En þessi þjófnaður minn var öðruvísi að því leitinu til, að ég tók seðil vísvitandi. Ég held það hafi verið 500 kall. Með seðilinn í höndum hljóp ég niður í kjallara, nær yfirbugaður af adrenalíni og eftirsjá, en þó með þessa sérstöku mammons-gleði sem athafnaskáld finna oft fyrir. Ég sór við sjálfan mig að gera þetta aldrey aftur. En spillingin gagntók mig. Fyrst ég hafði gert þetta einusinni, gat ég gert það oftar. Þegar lúxusvandamál tóku að herja á mig sem ungling, og ég sá ekki fram á að geta brauðfætt mig á poppi og kóki í næstu bíóferð, þá neyddist ég til að leita til veskisins. Svarta leðurveskisins sem er nú svo greipt í huga mér að mig dreymir um það. Já, spillingin getur verið svo lúmsk. Þegar ég var búinn að venjast því að stela 500 köllum, náði ég þeim þroska að geta stolið 1000 köllum kinnroðalaust. Það gerði mér alsekki erfitt fyrir að seðlarnir í veskinu hans pabba voru stundum svo margir, að ég var viss um að hann ætti ekki aura sinna tal. 1000 kallarnir og 500 kallarnir voru nú týndir upp eins og krækiber, og ekki leið á löngu fyrr en ég stal mínum fyrsta 5000 kalli. Þá hélt ég að toppnum væri náð. 5000 kall, aldrey aftur! En viti menn, 5000 karlar geta líka orðið daglegt brauð. Þannig er hluti af minni afbrotasögu. Ég gerðist sekur um mannrán á dauðum forsetum og biskupum úr veskinu hans pabba. Mig grunaði alltaf að pabbi vissi hálfpartinn um þetta alltsaman, og hann væri á vissan hátt samsekur að láta peningana sína liggja á glámbekk. Því fékk ég sjokk einn daginn, þegar ég gerðist svo kræfur að lauma 100 kalli upp úr veskinu hans á meðan mamma og pabbi voru inni í eldhúsi, og ég gripinn glóðvolgur að stela aumum 100 kalli. En pabbi varð ævareiður þegar hann sá mig, stórhneykslaður á þessu glæpaverki. Allt þetta fjaðrafok yfir skitnum 100 kalli? Þá fékk spillingin og djöfullinn inni í mér sálfræðilegan kinnhest, og þessir syndalestir héldu sig tilbaka í nokkurn tíma, þar til seinna þeir byrjuðu að grassera aftur. Ég ætlaði að bíða með þessa uppljóstrun þar til pabbi væri kominn á elliheimili og í mína forsjá, en táknið í draumnum sagði ''fáðu syndaaflausn nú, játaðu skammir þínar!". Í dag er ég náttúrulega endurfædd og hrein sál, og þar sem ég veit að pabbi les ekki þessa bloggsíðu bið ég mömmu um að vera ekkert að minnast á þetta frekar en hún vill. Þannig er það gert í kaþólskum kirkjum!

Bloggsafn