12/18/2004

Í gær las ég galdrabók um rúnir, í dag fann ég þurran mosa í rúminu mínu. Þetta var ekki lítið magn af mosa skal ég segja þér, heldur einskonar grunnur pollur fyrir miðju rúmsins og hvít fræ útí. Ekki veit ég hvaða ófyndna leik djöfullinn er að leika. Uppáhalds sjónvarpsstöðin mín þessa dagana er Ómega. Þar eru skemmtilegir þættir eins og þýsku nunnurnar sem syngja á ensku og tala eins og nornir, skynsama konan sem fílósíferar um daglegt líf hins vinnandi manns og allskonar spjallþættir við venjulegt fólk. Að vísu eru margir rugludallar á ferð þarna, og þá sérstaklega kolklikkaður bandarískur evangelisti Swaggart að nafni, sem heldur að fólk finni til guðlegrar nálægðar þegar hann stynur í míkrófóninn. Ómega er alltaf að safna pening til að borga reikninga, bankanúmerið er stanslaust á skjánum og það er sífellt auglýst eftir frumkvöðlum til að gefa 100 þúsund kall, frumkvöðlum sem vilja gerast hermenn guðs. Og allt gott um það að segja. Með nýja sendinum nær Ómega til Arabalanda, alla leið til heiðna fólksins sem þarf svo sannarlega á guðs orði að halda. Einusinni var sögð saga á Ómega, af fátækum námsmanni sem vildi svoooo mikið gerast frumkvöðull, en átti ekki pening. Hann sagði, að ef hann mundi óvænt fá 100.000 kall, þá mundi hann gefa þann pening til starfsins. Og viti menn! Næsta dag fékk hann óvænt 100.000 kall. Kraftaverk! En ég hugsaði í mínu demóníska hatri: “ef ég mundi finna 100.000 kall óvænt, þá mundi ég sko ekki gefa hann til starfsins”. Og hananú. Enda hef ég alltaf verið vinhallur undir djöfulinn. Eina helgi þegar enn var ókalt á íslandi, keyrði ég á bláa bílnum hennar mömmu niður í bæ, lagði honum bakvið Skólavörðustíginn og fór á fyllerí í bænum. Síðan dansaði ég með hvalskíði í handakrikunum við yndislega tóna “the Zuckackis Mondeyano Project”. Textar þeirra eru óguðlegir og klámfengnir, en melódíurnar svo guðdómlegar að mér finnst ekki synd að hlusta á þá. En jæja, daginn eftir fór ég á bílastæðið þar sem ég lagði bílnum. Og ég stóð á bílastæðinu og horfði á malbikið undir bílnum þar sem ég hafði lagt honum, því enginn var bíllinn. Ég gekk í marga hringi og hugsaði um, hvort ég hefði getað lagt bílnum einhversstaðar annarsstaðar. Nei. En þar sem þetta var merkt einkastæði sem ég hafði lagt í, ákvað ég að einhver hlyti að hafa látið tosa hann burt. Ég hringdi í Vöku, í tryggingafélög og vegagerðina, en enginn hafði tekið bíl. Þá hringdi ég í lögregluna og spurði hana, en hún gat fullvissað mig um að engum bíl hefði verið kippt burt á umræddum tíma á umræddu svæði, og því miður að, já, það er öllu steini léttara stolið á Íslandi vinur minn, trúðu mér, sagði löggan í símanum. Þú verður að koma niður á stöð með eiganda bílsins og tilkynna hann stolinn. Þetta var náttúrulega hryllingur, mamma og pabbi áttu eftir að verða kolvitlaus yfir þessu öllu saman. Ég ákvað að ganga stóran hring í kringum miðbæinn og hugsa minn gang, og skoða önnur bílastæði, bara uppá von og óvon. Og á þessari löngu göngu minni, þar sem ég var mjög hugsi og reykti margar sígarettur, man ég: Það var ávísun upp á 100.000 kall í hanskahólfinu! Stíluð á handhafa, þetta voru laun sem ég hafði fengið daginn áður. Og ég gat ekki hugsað annað en “ég veit að ég var með hroka gagnvart guði, en þurfti hann að taka allan bílinn!?” Svo reykti ég meira og gekk meira, uns ég kom aftur að bílastæðinu þar sem bíllinn minn var ekki, heldur einhver annar bíll búinn að leggja þar. Jæja, það var ekkert að gera en hringja í mömmu og tilkynna henni að bílnum hafi verið stolið: halló? hæ. Jæja, hvað segirðu gott? Ekkert gott. Nú af hverju? Þarna…bílnum var stolið, bláa Volksvagninum. NEI! NEI NÍELS! Jú, við þurfum að fara uppá löggustöð. NEI, hvað meinarðu?! Ég sótti bílinn í morgun. Og þá kom í ljós, að mamma hafði um morguninn átt langt spjall við mig um nákvæma staðsetningu bílsins og hún svo farið og sótt hann. En ég vaknað minnislaus seinna um daginn. HA HA! Og ég sem hélt að guð hefði haft eitthvað með málið að gera! Hann náttúrlega kom ekkert nálægt þessu, enda er hann ekki til. En það var samt illa gert af honum að má út minnið mitt og láta mig lenda í þessu. Segðu svo að hann hafi ekki húmor gamli kallinn!HAHAHAHHAHAHAHAHAHAHAHAHAhahahahh...

12/14/2004

Eftirfarandi blogg er tileinkað kúki, og Guðjóni Idiri Abbesi enda er hann líka á litinn eins og mykja og að auki finnst honum leiðinlegt að lesa um hundinn Heru, en hún kemur nú við sögu;
Hera stakk af í gær og sneri heim, búin að éta á sig óléttubumbu. Bumban sem hún var með í gær, var jafnvel enn stærri en þegar hún gleypti tvær fiðraðar gæsir með öllu nema sundfitum.
Í dag fór ég með hana í göngutúr og tók eftir því að rassboran á henni var óvenju mikil að flatarmáli, hún sveiflaði skottinu óvenju hátt og leit út fyrir að ætla að kúka von bráðar. Loks kúkaði hún á útsýnishól, svo allt hverfið hefði getað horft á.
Lorturinn sem kom út var sver, langur og ljósbrúnn.
Eftir smá spöl þurfti hún aftur að ganga örna sinna, en í það skiptið voru hægðirnar heldur linar.
(Ég vil bara taka það fram, svo það fari ekki á milli mála, að ég er einn af þeim sem er alltaf tilbúinn ef hundurinn minn vill kúka úti, ég er alltaf undir það búinn að stinga höndum oní vasa, líta til himins og halda áfram að labba eins og ekkert hafi í skorist. Því ég veit að kúknum mun hvort eð er skola burt og lítil börn eiga ekki að vera það heimsk að borða hundaskít).
Jæja, svo var röðin komin að sjálfum mér að leysa buxurnar. Ég var nýbúinn að hreinsa klósettið, sem heitir Gústi litli, með brennandi heitu vatni úr sturtunni, svo stöðuvatnið í skálinni var heitt. Og þegar réttur gærdagsins datt út úr mér í heitt vatnið, hefur hann leystst einhvernveginn upp, svo lyktin varð eins og af barnakúk.
Sjálfur á ég ekki barn en þekkti þó lyktina strax, því þessi lykt er nokkuð sem festist í dulvitundinni, já:
"barnakúkslykt er föst í sammannlegri dulvitund mannkynsins, hún er arketýpískt leiðarminni sem birtist í formi lyktar í æsku, í foreldrahlutverki og dauða. "
eins og C.G. Jung reit í riti sínu "Man and his symbols" á bls. 370.
En núna í kvöld hleypti ég Heru aftur út í garð, eins og alltaf hvarf hún út í myrkrið inn á milli trjánna, svo eina vissan mín um að hún sé ekki flúin er dinglið í hálsbjöllunni hennar. Og þegar dinglið hafði ekki heyrst í nokkurn tíma kallaði ég reiður "komdu litla druslan mín!".
Þá heyrði ég viðrekstur svo öflgan, að húsagarðurinn allt í kring tók undir og drundi með. Að vörmu spori barst út úr kolamyrkrinu maukþykk drullufýla og Hera í kjölfarið á harðaspretti til mín.
Það leið næstum yfir mig. En eitt er víst að Hera litla fær ekki að sofa uppí í bráð hjá mér. Hún er ógeðsleg. En að vísu fyndist mér Birgitta Haukdal örugglega vera jafn ógeðsleg ef ég væri alltaf að horfa á hana kveða drundrímur daginn út og inn. Svo það er ekki að marka.

Bloggsafn