12/23/2004

Já, nú eru jólin komin. En það er ekki eins og þau hafi komið til mín í dag! Í dag var ég nefnilega í vinnunni, og það var lítið framan af degi sem gaf vísbendingu um að það væru meiri jól í dag en í gær. Fyrir það fyrsta, þá var náttúrlega dimmt. Ég var í Kópavogi að vinna fyrir lítinn hlæjandi Kínamann, sem gaf mér mat. Hann þurfti, núna þegar gaddurinn og hlákan herja til skiptis, að reisa sér pall og leggja hellur í garðinum sínum. Naglar voru lamdir í spýtur. Steinar lagðir í sand. Og gegnumfrosnir haugar af drullu allt í kring. Já, úti á miðri götu að nafni Hólahjalli stóð ég og lamdi malarskóflu í frosinn sandhól á meðan buna af heitu vatni dembdist yfir byngjuna og mig. Kraft gallinn var eins og skel utan á mér, gufan frá heitavatninu lék um kinnarnar, ég sá lítið framfyrir mig en hamaðist eins og óður maður á krapinu. Ullarpeysan fór að stinga mig af hita, ég varð ringlaður en reyndi eins og ég gat að hjakkast á viðfangsefni mínu. Smátt og smátt birtist mynd af grænum snáki í huga mér, og því meir sem ég horfði varð hann slímugri, færðist nær og nær og á endanum fannst mér ég sjálfur vera orðinn slímugur snákur. Þá hætti ég þessu og reyndi að ná áttum. Ég var fúll. Að vinna svona rétt fyrir jól, mér fannst eins og ég ætti að vera í jólaskapi. Og þegar ég fann að jólaskapið var ekki hjá mér, varð ég enn fúlli, hugsaði aftur um týnda jólaskapið og varð um leið ennþá fúlli. Þessi vítahringur gekk áfram þar til ég fékk hausverk. Áfram stóð ég úti á götu, þegar hvítur Landkrúser stoppar í brekkunni rétt fyrir neðan mig. Hann vildi komast upp götuna, en hræddist litla sandhrúgu sem ég hafði skrapað saman á miðri akreininni. Mér var nú öllum lokið, þessi maður gat sko alveg keyrt framhjá eða að minnsta kosti yfir hrúguna. Ég sveiflaði höndunum þannig, að þær gáfu til kynna "þú kemst, þú kemst, nóg pláss". En Landkrúserinn bifaðist ekki. Þá kom til mín annar af tveimur yfirmönnum mínum í þessu þriggja manna fyrirtæki sem ég vinn hjá, og sagði spekingslega: "moka hrúúúgunni frá!" Blautur og skítugur gerði ég það, Landkrúserinn lagði í "torfærurnar". Ég náði að glugga inn um bílrúðuna og sá þar ungan glókoll, ekki eldri en mig, í hvítri skyrtu. Kannski ímyndaði ég mér bara, en var hann ekki með einhvern geðþóttasvip á andlitinu? Nú fannst mér ég vera úrhrak. En hvar var hátíðarskapið? Og helvítis jólaandinn? Getur einhver sagt mér hvar þessi HELVÍTIS jólaandi er? Allt er þegar þrennt er, sérstaklega þegar heilaga þrenningin er á ferð. "Leggja dúk í brekkuna, setja svo möööööl yfir". Jább sagði ég. Gengið upp brekku, gráhvítur dúkur lagður í brekku, malarsteinar sóttir í hjólbörum. Ég kraup á kné mér og horfði niður moldarbrekkuna sem ég hafði þakið dúk, í útsýninu bakvið voru neonljósin frá Smáralind, bílaniður og lykt af frosti. Ég stakk krumlunni ofan í malarhrúguna, dró hana út og virti fyrir mér. Ég sá kreppan hnefa. Laumaði hendinni undir síðu mér og slengdi henni svo frá brjóstkassanum. Á sekúndubroti spenntist lófinn upp eins og tívolíbomba á himni, steinarnir þeyttust út í loft og skoppuðu léttilega niður brekkuna, liggur við eins og þeir væru að dansa ballett. Dansandi ballettsteinar; þetta var það frumlegasta sem ég sá þennan daginn, svo ég endurtók gjörninginn. Steinarnir létu algerlega að stjórn, ég lét snjóa steinum. ÉG lét snjóa steinum, þeir voru á mínu valdi! "Skapaður er ég guðs mynd og svona líður Jesúm þegar snjóar" var hugsað. Gleðitár rann niður vinstri vangann, glært hor úr nös. Já kæri lesandi, jólin eru bara ástand sem þarf að höndla eins og hvað annað. Mundu að þó þú brosir í andlitinu þýðir það ekki endilega að þú farir að brosa inni í þér. Því ef það er gert missir andlitið beintengingu við sálina, og í sambandsrofinu verða þau afkáraleg eins og hrekkjavökugrímur. Nei ég veit ekkert um það. Gleðileg jól!

Bloggsafn