4/22/2005

. . . . . . . . . . . . . . . . . jamm

2/18/2005

Biturleiki. Við lifum á tímum mikilla félagslegra einangrana. Nei það er ekki satt. Ég segi þetta bara afþví mér datt í hug að ég væri félagslega einangraður. En þá uppgötvaði ég að ástæðan var einfaldlega sú að Guðjón Idir Abbes Malik er farinn til útlanda. Hann er sá eini sem hringir í mig og sendir mér sms. Ég fæ hálfgert samviskubit yfir því að verða alltaf hálf fúll þegar ég fæ sms frá Gauja, en það er af því ég veit frá hverjum sms-ið er. "Bíb bíb" í símanum = Gauji. Ég skil ekkert í þessu? Af hverju er ég svona óvinsæll? Ó-vin-sæll. Ég sem er svo víðsýnn! Jú jú, ég veit svosem að það eru allir uppteknir við að smokra giftingahringjum uppá puttana á sér eða að stinga matarjukki uppí einhver börn. Ég ætla ekki einusinni að byrja að tala um þann viðbjóð sem ég hef á öllu slíku. Já já, lifið bara hamingjusöm til æviloka og sendið mér kort á jólunum! Munið bara, að hlakka til að deyja. Ef þið gerið það mun allt fara vel, því tilhlökkunin gerir líf ykkar að einni stórri eftirvæntingu. En aldrey hringir neinn nema Gaujjji. Það er í raun ótrúlegt að fólk skuli ekki flykkjast að mér. Með hugleiðingu og lestri bóka hef ég tekið mikið forskot á lífsþroskann. Ég er mjög umburðalyndur maður og get þolað allskyns duttlunga í fólki. En duttlungar eru einmitt það sem gerir fólk óþolandi í augum annars fólks. En fólk skilur þetta bara ekki! Það er svo vitlaust! Mannkynið þolir ekki hvort annað, afþví allir vilja að allir aðlagi sig að öllum. En það er ekki hægt! Og í mínu tilviki...því umburðalyndari sem ég verð því minna þoli ég umburðaleysið í öllum öðrum. Mikið vildi ég að aðrir væru eins og ég, segi ég nú bara eins og kerlingin sagði. Kötturinn Pavel virðist ennþá elska mig útaf lífinu, ekki þarf ég að beita félagslegum hæfileikum mínum á hann. Hann kom einn daginn með ól um hálsinn, og þar sá ég hvað hann heitir: Snælda. Það er einhver Ragga sem á hann. Mikið finnst mér nafnið snælda vera þröngsýnt! Tuff. Kisulóran býr með mér núna, og heitir Pavela. Pavela! Djöfullinn sjálfur, hún er alltaf að brýna klærnar á sófanum hennar Saló ömmu! Nú hendi ég stílabók í hana!! Nú hef ég hent stílabók í hana, og hún fór í fýlu, hljóp út um glugga. Kannski kemur hún aldrey aftur. Nú koma nokkrar senur úr raunveruleikanum: Fjölskylda situr þögul og horfir á leynilögguþátt í sjónvarpinu. Hún hefur setið þar þögul lengi lengi. Allt í einu spyr einn fjölskyldumeðlimurinn "hvað er að frétta?". Hann býst við svarinu "ekki neitt" og friði til að horfa á imbann. En einn fer að segja frá einhverju sem átti sér stað í lífi hans, frá samtali við gamla konu sem heimtaði að hann dansaði enskan vals. Saga fjölskyldumeðlimarins varð sífellt innblásnari og innblásnari, skemmtilegri og fyndnari þar til hann sá augu fjölskyldunnar flökta til og frá, á hann og sjónvarpið til skiptis. Fyrst voru augun ráðvillt, en síðan pirruð, eins og þau vildu segja "uss, þú ert að trufla sjónvarpið!". Sögumaðurinn þagnaði en sjónvarpið hélt áfram að kyrja. Ég vorkenni svo oft góðviljuðum miðaldra konum. Um daginn sat ég við hringborð með tveimur körlum, þremur miðaldra konum og stúlku. Lítið þekktumst við innbyrðis, og andrúmsloftið heldur stirt. Ein þessara kvenna var mjó, rauðhærð og frekar uppþornuð einhvernveginn. Ég vorkenndi henni ekki. Önnur var stór og skjólgóð, með kantskorið brúnt hár við eyru og sköruleg. Henni vorkenndi ég ekki. En þarna var ein, hvíthærð og síbrosandi. Það er eins og brosið sem sú hvíthærða gefur frá sér, þurfi alltaf stuðning. Ef hún segir eitthvað kímileit eins og broskall 8?) , þarf hún alltaf að horfa beint í augun á einhverjum og hann helst að kinka kolli brosandi á móti. Henni vorkenni ég, kannski afþví mér þykir vænt um veikbyggðari börn guðs. En við sátum þarna við hringborðið, og hvíthærða konan sagði brandara. Það fannst engum hann fyndinn, og enginn hló. Ég hinsvegar var svo óheppinn, að þurfa skyndilega að hósta. Hún hélt að mér hefði svelgst á, vegna fyndni brandarans. Þetta vissi ég (þ.e. hvernig hún hugsaði) á meðan ég hóstaði niðurlútur með spennta magavöðva. Í því sem ég lyfti upp hausnum ákveð ég að vera heiðarlegur, og segja með augum mínum við hana að ég hafi ekki verið að hósta afþví brandarinn hennar hitti í mark, þvert á móti... Það fór eins og ég hélt, stóru bláu augun hennar horfðu með eftirvæntingu á mig. En ég varð beinlínis vitni að fuglshjartanu í henni brotna saman, þegar hún sá að mér var ekki hlátur í huga. Þessi brostnu augu, mig langaði svo að faðma hana og segja "æ grey kerlingahró, þetta var samt góður brandari!". Einhverntíman hugsaði ég þetta, en hef engum sagt frá því. Ég skammast mín svo. En það verður að líta dagsins ljós. Það er heilög skylda mín að opinbera sannleikann!
Frægur sigur!
Jæja, það sem ég hugsaði var: Samtal á milli Guðmundar Arnlaugssonar og Þorgerðar Ingólfsdóttur, umræðuefnið var körfubolti. Mummi sagði: "Þorgerður, þegar Níels er í stuði stendur honum enginn á sporði". Hallærislegt. Nú hef ég sagt allt sem mig langar að segja um aldur og ævi, amen. Ég hef verið haldinn illvígum sjúkdómi í mörg ár, sjúkdómi sem m.a. systkini mín hata. Stoltur hef ég ætíð sagst ætla að gera allt á morgun, en aldrey gert það afþví að á morgun er alltaf á morgun alveg sama hvenær. Nú ætla ég að taka þessa afsökun af stefnuskrá lífs míns, því í dag er á morgun. Það þýðir ekki að ég ætli að gera allt í dag, afþví það eru svo margir morgundagar sem ég skulda. En hluti af þessu átaki er að hætta að blogga í dag, og ég stend við það fjandinn hafi það punktur og basta. Þetta er búið að dragast alltof mikið á langinn, og ég þakka þér kærlega fyrir allan þennan þolinmóða lestur. Ég unni þér, og mundu að láta þér þykja vænt um alla, það er miklu erfiðara en að hata þá en um leið mun þægilegra, og láttu þér þykja vænt um brjóst. Aldrey skaltu misþyrma brjóstum, þó þú sért sadómasókisti. Það er fátt sem hryggir mig meir en óvirðing fyrir brjóstkoddum kvenna, því allraheilagasta í heimi hér. Ég fæ bara ógeðisfiðring í rassinn þegar einhver minnist á víking með sverð sem gengur um og sker brjóst af konum. Megi sá víkingur frjósa í Niflheimum. En ef þú villt fá reglulega sent stutt ársfjórðungsuppgjör, þ.e. fjögur bréf á ári, skaltu senda mér e-mail með í-meilinu þínu. Alveg sama hver þú ert, þú mátt jafnvel villa þér á heimildir, sama er mér. Stílfræði bloggsins segir: "Ef ljúka skal bloggi, og ríta ei meir, skulu orðin vera orkurík sem tíu hvirfilbyljir í iðrum jarðar. Sé þetta eigi gjört, mun eilíf bloggsamviska naga bloggarann í punginn sé bloggarinn karl. En ef bloggarinn er ekki karl, heldur kona, mun samviskan sannlega bíta hana á stað ekki svo fjarri þeim stað, þar er pungur væri annars ef bloggarinn væri ekki kona heldur karl" En þar sem ég kann ekki að gera slíkt, treysti ég á Stefán Hörð að klára þetta fyrir mig. Þetta skrifaði hann í ljóðabókinni 'Tengsl'.
AÐ FARGA MINNINGU
.
.
Sá sem kemur aftur
er aldrei sá sami
og fór
.
.
Sú sem heilsar
er aldrei sú sama
og kvaddi
.
.
Ævintýri
eru eldfim
bæði lífs og liðin
.
.
Sagnir um öskufall
við endurfundi
hefur margur sannreynt

2/14/2005

Mikið ofboðslega er ég svangur. Nú er klukkan sjö að morgni og ég hef legið andvaka í þrjá tíma, undir lokinn , svona í klukkutíma, var ég farinn að rifja upp allskyns mat sem ég borðaði á ævinni. Devitos. Indókína. Krúa Thai. Samlokurnar í Passignano. Rússneskur Kebab. Kjötbrauðin í Erevan. Soðnar SS pulsur. Pólski bakarinn á Istedegade! Minningar um góðan mat eru ómetanlegar. Því stend ég nú upp, það gengur ekki lengur að vera svangur! Það er synd! Í gær var ég heppinn, þá gat ég opnað ísskápinn og hitað hakk og spagettí frá deginum áður. Ég var svo þakklátur. Ég man nefnilega þegar ég var ljóninja útí Afríku, og ljónahjörðin mín vildi ekkert með mig hafa. Þá þurfti ég dögum saman að hírast í köldum helli um nætur, og á hverjum degi þurfti ég að hafa sömu áhyggjurnar: "Ætli ég veiði mér antilópu fyrir hádegi? Ég nenni því enganveginn! Purr!". Það var enginn ísskápur í hellinum mínum, og oft þurfti ég að borða eðlur og híenur, afþví þessar helvítis antilópur áttu það til að vera svo assgoti styggar. En gott var nú samt að læsa vígtönnunum í litlu rassana á þeim, hlaupa þessar elskur uppi og "HRAMM!" þú ert mín. Ekki man ég þó eftir að hafa borið mikla kynhvöt til antilópa, en best fannst mér þó þegar forystuljónið stakk sér eitt sinn á bólakaf inn í skonsuna á mér, og öskraði svo hátt að öll sítrustrén við ánna skulfu og öll dýr merkurinnar hrukku í kút, þau vissu hvað var á seyði; Gummi ljón fékk það inní mig. Svona er að muna eftir þessum fyrri lífum sínum. Annars hef ég undanfarið reynt að venja mig af ljótum kæk. Ég er alltaf að spjalla við einhverja sjónvarps- og útvarpsmenn í huga mér. Ég er yfirleitt að tjá mig um öll heimsins málefni og allir hlusta af mikilli athygli, ég er orðheppinn, klár og mælskur. En nú reyni ég að koma í veg fyrir þessar hégómlegu hugsanir, og alltaf þegar ég geri mér grein fyrir hvað er á seyði, beini ég tali mínu til hundsins Heru. En undantekningalaust fipast mér flugið, vefst tunga um tönn og hreinlega gleymi um hvað ég var að tala. Þetta segir mér bara, að drifkraftur visku minnar er sú að margir hlusti í einu. En ef það sem ég er að segja er ekki nógu gott fyrir hundinn minn, þá hljóta orð mín að hafa ígildi kúahlands og sullaorma. Já, ég er ekki frá því að þessum orðaflaumi hér sé ofaukið! Þessu ber að hætta. Mjög fljótlega. Bless. Sjáumst síðar. Aligator.

2/07/2005

Jájá. Í morgun vaknaði ég eftir 12 tíma svefn með holdris sökum hlandóþols og gekk hausþungur inn á klósett. Þar náði ég að lyfta setunni og pissa. Ekki hélt ég um typpið á meðan, afþví ég er einstaklega hittinn maður. Fékk mér vatnssopa til hressingar og vonaði á leiðinni til baka, að ég mundi verða hress fljótlega og komast á ról. Það gekk ekki eftir, sobbnaði um leið og ég lagðist á ný, þrátt fyrir að hafa kveikt á lampa til að búa til meiri svona "það er kominn dagur" stemningu. En mig dreymdi mikla stórslysadrauma á skipum, bæði ryðdöllum og trillum sem brunuðu hvor framhjá öðrum, en líka í stórum járnrútum sem þeyttust eftir bröttum fjallvegum. Svo fékk ég gefins þrjár rúðuþurrkur. En hvað um það? Það var aldeilis gaman. Skrítnast fannst mér þó vera þetta drauminnskot; ég var að tala við einhvern og horfa á sjónvarp. Svo steig Ragnheiður Gröndal á svið, og ég fór að gráta. Svo steig hún burt, kom aftur og aftur fór ég að gráta beisklega. Svona yndislegum gráti. Gráti þar sem gleði heltekur manninn yfir því að hann sé tilfinningavera yfir höfuð. Þá sagði ég við sessunautinn "Þetta er svo fallegt. Ég fer alltaf að gráta þegar ég sé Ragnheiði Gröndal". Eitthvað tók ég að ranka við mér þremur tímum seinna, um tvö e.h. Þegar ég loks fór að hreyfa mig eins og snákur niður úr rúminu, löturhægt og varlega, nuddaði stírurnar þá fann ég!! Ég var með heimsins stærstu stírur. Alveg á við borgarísjaka, í því hlutfalli ef augun væru litlar tjarnir. Drykklöng stund fór í að toga stírurnar út úr augntóftunum, þær lágu svo djúpt. Lesandi góður hlustaðu nú vel á! Stírur eru einmitt storknuð tár, og bendir þetta eindregið til þess að ég hafi raunverulega grátið í svefni. Í draumi. En nú þykist ég heyra þig spyrja, kæri lesandi: "hvar voru rúðuþurrkarnar? Ha?" Það veit enginn. Hefði verið praktískara segi ég nú bara, mig vantar einmitt rúðuþurrkur á bílinn hennar Sollubollu. Tilviljun? Nei.
Blessuð dýrin! Ég sat í eldhúsinu um daginn og át súkkúlaðiköku. Þá kom til mín Hera og starði á. En hún er svo lítil og vitlaus, að hún prumpaði á meðan hún horfði á mig. Hún gerði það örugglega afþví hún var svo spennt. Spennt að fá súkkúlaðiköku! Svo ég benti með fingrinum að nefinu á henni, til að skamma hana fyrir þennan dónaskap að prumpa upphátt þegar einhver er að borða, en þá hélt hún að ég ætlaði að fara að gefa sér súkkúlaðiköku og spenntist meir, svo hún prumpaði meir! En vá hvað þetta var skrítið. Því Hera er svo roskin og viturleg, en prumpið hennar var skært og saklaust og ekkert líkt því hvernig hún lítur út. Mér fannst hún alltíeinu svo sæt með sinn gráa hökutopp að ég vildi láta hana vita hversu mikið dúlli dúll mér finnst hún vera. Augun í henni horfðu svo biðjandi og undirlát á mig, hún er ennþá með hvolpaaugu þó augnpokarnir séu signir. Ég hallaði mér að henni og ætlaði að segja "dzzu dzzu dzzu" en þá hélt hún í alvörunni að hún væri loksins að fá súkkúlaðiköku, kipptist til og prumpaði enn einusinni! Þetta fannst mér svo fyndið að ég datt hlæjandi af stólnum mínum og öll þessi prump voru löngu hætt að snúast um matarlyst. Blessuð sé Hera. Og svo er það auðvitað kötturinn Pavel. Blessaður sé hann. Kötturinn Pavel er kolsvartur með hvítan blett á bringunni. Hann hefur ákveðið að eyða lífi sínu með mér. Ég tók fyrst eftir honum í sumar, þar sem hann lá á gægjum úti í runna og fylgdist með mér slá hamri í nagla. Svo þegar kólna tók, læddist hann stundum inn í íbúðina mína. Ég var ekki par hrifinn, enda sýndist mér hann sífellt vera að pissa út um allt, og henti honum því öfugum út. En hann ER ekki að pissa, hann lætur bara skottið á sér titra mjög hratt alltaf þegar hann sér mig. Ég dreg því þá ályktun að hann hafi orðið ástfanginn af mér, þrátt fyrir illa meðferð mína á honum í fyrstu. Þar sannast hið ókveðna að "þeim unni ek mest er fór met mik sem verst". En kötturinn Pavel er gáfaður og vel upp alinn. Hann kann að banka, og hann kann að opna hurðir. Hann drekkur úr glösum: annaðhvort stingur hann annari loppunni ofaní og drekkur svo úr lófa sér, eða eins og ég varð einusinni vitni að, þegar hann drakk úr barmafullu glæru vatnsglasi, stakk hausnum ofan í það, lét tunguna út úr sér og lapti, nema hvað, tungan var svo löng að hún liðaðist alla leið niður á botn glassins og lagðist þar í stóra rósrauða spagettíhrúgu. Ég hélt mig væri að dreyma, en mig VAR ekki að dreyma afþví ég er að ljúga þessu. En það getur verið góður félagsskapur í köttum, sérstaklega ef maður er einmana. Mig grunar að gömul kona sem á heima hérna í næsta garði, eigi Pavel. Ætli hún sitji ekki hokin í baki, hérna hinumegin við vegginn, í íbúð sem er tvíburaíbúð íbúðarinnar minnar, ein, yfirgefin, döpur, jafnvel grátandi? Kannski fellur eitt saknaðartár niður skorpnaðan vanga hennar, afþví enginn heimsækir hana, hún er gleymd og ekki einusinni kötturinn sem hún tók að sér af einskærri góðvild nennir að hanga með henni. Pavel litli skreppur bara til hennar í mat, en finnst kellingin svo óspennandi að hann kemur strax aftur til mín. Ætli ætli gamla konan bíti ekki í sína ódýru síld og hlusti á veðurfregnir. Ætli hún líti ekki í spegil og sjái engan tilgang í að plokka hvít hár framan úr andlitinu? Og stynur kannski yfir því að fá engan alminnilegan morgunmat, afþví nágrannarnir geta ekki passað upp á svarta heimska labradorhundinn, sem stelur stundum matnum sem heimilishjálpin skilur eftir fyrir utan útidyrahurðina. Á meðan sit ég, ungur og fallegur með ástfanginn kött í fanginu, fullur tilhlökkunar yfir lífinu. Horfi grátandi á Jay Leno og borða pizzu. Mér líður svolítið eins og Jolene í laginu hennar Dolly Parton.

2/01/2005

Ég lofaði að minnast á hæfni stelpu nokkurar í leik þeim er púl heitir. Hún var með slegið hár, ljósa lokka, lítið nef, fullkominn munn og tvö eyru með engum eyrnalokkum. Nafn hennar var Eva. Eva eins og kærastan hans Adams sem kom með syndina í heiminn. Hún þeytti billjarðkúlum með kjuða sínum af stakri snilld. Hve fögur var sú sýn, er hún setti hina svörtu kúlu kylliflata í eitt hornið. Ekki þykir mér varið í, að eyða mikið fleiri orðum í atgervi hennar í púlstofunni á Hverfisgötunni, heldur þykir mér betra að lýsa henni ögn. Eins og ég sagði var hún glókollur, andlitið lýtalaust, lítið um pjatt og tilgerð í fatavali; bláar gallabuxur og hæfilega fleginn bolur. Brjóstin ekki af stórri gerð, en rassinn alveg hreint kjörinn. Hún var sennilega rétt undir kjörþyngd, aðeins lægri í vexti en ég. Hún kom mér fyrir sjónir, svona við fyrstu sýn, sem fyrirmyndarkærasta vöðvastælts handboltatrölls. En eftir því sem á leið, vissi ég þó að eitthvað meira og dýpra byggi undir þessari annars fullkomnu ásjónu hennar. En fyrst ég hef eytt svo mörgum orðum í að lýsa henni, verð ég eiginlega að geta einhvers sem gekk fram af munni hennar. Þótti mér merkilegt er hún mælti við Guðjón Idir Malik Abbes: "Sko Gaui, þó við séum að tala saman þá finn ég alveg hvort Níels er að horfa á mig eða þig" Það er merkilegt hve nærvera einnar stúlku getur breytt andrúmslofti. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég, G.I.A. Malik og Stefán verið einir að skjóta kúlum, og því verið fýldir á svipinn, prumpað og ropað til skiptis. En þessi óvænta nærvera freistingar djöfulsins lét okkur vera hressa, kampakáta og meðvitaða um að bora ekki í nefið. En eitt er það sem gerir billjarðstofur að sérstökum stöðum. Þar og aðeins þar getur maður séð hvar konur halla sér yfir borðbrún svo rassinn bendir stinnur út í loftið. Það finnst mér ein sú fegursta náttúra, þessar líkamsperlur slá við hvaða Gullfossi sem er. Fyrir mér mætti virkja Kárahnjúka og Langasjó, veitið mér aðeins hina undursamlegu þjóhnappasýn. Og það má Guð vita, að afturendinn á Evu var ekki af verri kantinum. Í framhaldi af því vil ég deila þeirri ágætu hugmynd minni, sem ég ætti í raun að halda leyndri þar sem ég gæti grætt milljónir á henni, að stofna nektarpúlstofu. Þar gætu allir berhneigðir menn og konur háttað sig, og bograð yfir borðum. Þá mundu nú aldeilis sníparnir standa út um allar trissur! Að vísu væri jafnvel enn meira magn af loðnum rössum, sem út úr stæðu ljósbláir rasslopar, samanþjöppuð ló héðan og þaðan úr bómullarnærjum. Nei hugmyndin er ekkert sniðugt né spaugilegt. Fojj. En fyrst ég er kominn út í dónaskap get ég allt eins sagt frá atviki einu sem ég lenti í fyrir mörgum árum. Það er svo langt síðan, að mér finnst ég vera annar maður. Mér finnst þessi atburður eiginlega ekkert koma sjálfum mér við lengur. Á þessum tíma bjó ég enn yfir þeim hæfileika að verða drukkinn og lenda uppi í bóli með snót án þess í raun að hafa lagt mig neitt fram. Ég hreinlega datt ofan af himni í fangið á stúlku og stúlkan hafði þá þegar plantað sér í rúmið mitt. Þetta er hæfileiki sem ég hef löngu glatað. Jæja, stúlkan sem um ræðir var 28 ára gömul og ég þónokkuð yngri. Hún var algjörlega ofurölvi, kannski hikstaði hún. Og þar sem Níels Garlakall þessa tíma lá með henni og reyndi að færa sig upp á skaftið, spurði hún hann hvort smokk ætti. Eigi átti drengur þessi smokk. Þá hvíslaði hún í eyra hans, eins og snákur undir skilningstré: "Ef þú nærð í smokk skal ég gefa þér besta lei sem þú hefur nokkurntíman fengið". Eftir nokkurt karp, og fyrir heit um góð lei, þá hentist ungi drengurinn upp úr rúminu, setti á sig trefil og vettlinga og hljóp í átt að BSÍ. Ég man bara, að í huga mér endurómuðu orð hennar "...skal ég gefa þér besta lei besta lei besta lei". Fætur mínir hlupu, líkaminn var nokkuð hastur, eins og bíll með lélega fjöðrun. Það gerði drykkjan. Lungun supu hveljur í frosnu lofti og krepptir hnefar geystust hvað eftir annað í átt að hausnum; það voru hendurnar að hlaupa með fótunum. Svo fékk ég smokk og hljóp til baka, en þá var hún bara steinsofnuð auðvitað, ég reyndi að pikka í hana en engin viðbrögð og ekkert lei handa neinum. Köttur úti í sýri setti upp á sig týri úti er ævinmýri. PS: Varúð Varúð! Nú er hægt að kommenta með því að smella á appelsínu dagsetninguna hér fyrir neðan. Þar ríkir fullkomið tjáningafrelsi.

1/26/2005

Þegar undir skörðum mána / kulið feykir dánu laufi / mun ég eiga þig að rósu. hu hu humm. Einusinni vildi ég ekki hafa teljara á síðunni minni, afþví ég vildi ekki vita hversu fáir læsu. En eftir því sem innihald síðunnar varð æ meira innihaldslaust blaður, þá setti ég teljara upp og komst að því að 25 innlit eiga sér stað daglega. Ég bar mig saman við teljarann hans Braga Bergþórssonar, og hann fær um 75 á dag minnir mig. Ég fékk minnimáttarkennd, hvað hefur hann sem ég hef ekki? Svo komst ég að því: hann hefur myndir. Sjálfsálitið mitt getur huggað sig og blekkt við þá tilhugsun, að Bragi sé með fullt af myndum á síðunni sinni sem annað fólk linkar á, og í hvert skipti sem einhver skoðar mynd þá fær Bragi það skráð sem flettingu. Segjum það. En Gaui setti líka upp teljara, og varð fyrir vonbrigðum með innlitin. "Bara fimmtán á dag, mér finnst það glaaaatað". En það er ekki fjöldi gesta sem skiptir máli, heldur gæði lesandans. Og þar sem ég efast ekki um að þú sért eðalmanneskja, elsku besti lesandinn minn, þá hef ég engar áhyggjur. En þó að þú sért lesandi í karlkyni og ég tali við þig sem slíkan, þýðir það ekki endilega að ég sé ekki að tala við þig, kona mín góð! Því þú ert yndisleg kona, með tvö brjóst og læri. Þú veldur hungri hjá körlum! Og þó ég tali við þig sem konu, þýðir það ekki að þú sért ekki karl. Því innra með hverjum karli býr sál, og sálin er kynlaus, því sálin er andi guðs sem er hvorki karl né kona. Það sést í augunum, þegar ég horfi djúpt í augu þín, og trúðu mér ég er að horfa núna þó ekki sjáirðu mig. Ég er inni í skjánum, bakvið fosfórið. Ó, augu þín, elsku bróðir, eru svo kynlaus. Ég ætti í raun að ávarpa þig í hvorugkyni elsku hjartans lesyndið mitt! En til hvers þetta ljóð í byrjun færslunnar? Ástæðan er lögmál bloggstílfræðinnar: Gott blogg skal ávalt byrja á góðri setningu, því fólki sem leiðist kíkir á sama bloggið oft á dag, dag eftir dag. Vond upphafssetning á bloggi sem sjaldan er uppfært, getur hreinlega verið mannskemmandi. Og af hverju þá ekki að byrja bloggið sitt á einni fegurstu orðaröð íslenskrar tungu, þessu ljóði eftir Stefán Hörð Grímsson úr bókinni Svartálfadans? Lestu nú ljóðið aftur ljúfi kúturinn minn, dúfan mín!

1/24/2005

Pabbi minn spyr mig oft á dag, hvað sé að frétta. Ég svara honum alltaf, að ekkert sé að frétta. Svona hefur þetta gengið í mörg ár. Það er augljóst, að lífið og þá sérstaklega líf mitt kannski, er tíðindalaust. Mikið ofboðslega er leiðinlegt að lifa þvílíku lífi. Ef einhver mundi ræna mig eða kýla mig, það væri strax eitthvað. En nei. Eins og alltaf gerast hinir mest krassandi atburðir lífs míns í draumum mínum. Rétt áðan datt pabbi einmitt fram af bryggju, ofan í höfn fulla af klökum. Ég togaði hann uppúr, dreif hann inn í nærliggjandi skip þar sem Steingrímur J. Sigfússon vildi ekki leyfa mér að þurrka pabba minn. Í gærnótt var Guðmundur Rúnar, öðru nafni Grunar, að túlka gamlar læknaskýrslur um mig. Samkvæmt öllu mun ég deyja mjög snögglega í framtíðinni, úr einhverskonar heilablæðingu. Það eru því blikur á lofti. Ég mun sjá eftir því að hafa einhverntíman viljað lifa tíðindaríku lífi. Í raun hef ég alltaf verið ótrúlega heppinn. Til dæmis bara í gær, þá fannst mér ég vera lukkunnar pamfíll. Ég sat á hinum ágæta skemmtistað Sirkus og horfði á stúlkukind sem vill vera gjörningalistakona. Ég veit ekki hvort gjörningur hafi verið í gangi, en hún var að hreyfa skankana uppi á borði. Það skein af henni greddan, hún hreyfði rassinn upp og niður og virtist hugsa "æh hvað ég vil fá typpi í mig, arrg". Augun voru full af sjálfstrausti og merkilegheitum, en ég byrjaði ekki að hugsa um hversu heppinn ég væri fyrr en hún var komin á bakið ofan á borðinu og hreyfði lappirnar eins og hún væri að synda baksund. Það skvettist nefnilega bjór yfir alla í kring, nema mig. Ég sat bara í hnipri á meðan hún danglaði glösum til hægri og vinstri við mig. Þá kom sem betur fer aðvífandi kvenkyns dyravörður og skakkaði leikinn. Ekki mundi ég vilja lenda í þessum dyraverði, sem gæti sómt sér vel við að pynta fanga í Abu Ghraib. En ekki leið á löngu fyrr en gjörningalistakonan fór að sletta skönkunum í allar áttir á ný, nú standandi upprétt. Í þetta skiptið stillti ég þeim bjórum sem voru fyrir framan mig upp á borðröndina fjærst mér. Greddudansinn endaði loks á því að hún féll kylliflöt yfir hóp af fólki svo lítil hrúga myndaðist á gólfinu. Upp úr hrúgunni skreið hún svo, ringluð með blóð lekandi úr hauskúpunni. Já, hvar væri maður ef ekki væri fyrir allt þetta skrítna fólk til að glápa á? Hér er ágætt myndaalbúm um Írakstengd málefni. Og svo bloggaði systir mín drukkin, það bara örlaði á einlægni! Gott framtak sem fleiri mættu stunda, áfengið getur svo oft brotið óþarfa yfirborðsskel sálartetursins og opnað fyrir flæði göfugra tilfinninga. Svo bendi ég á stórkostlega skemmtilega linka sem Petrakov býður uppá 23. Janúar; heimasíða Pútíns fyrir leikskólabörn. Svo er Petrakov sjálfur ekki svo galinn, kannski ekki allra.

1/20/2005

Já, það er ekki að spurja að því. Ef maður gúgglar "mun ég eiga" þá kemur út ljóð. Allavega svona dautt nútímaljóð. Mjamm. mun ég eiga góða keppni þar mun ég eiga í vandræðum mun ég eiga þess kost að fjalla um skiptingu mun ég eiga afmæli mun ég eiga spor mín um ganga skurðlækningardeildar mun ég eiga1 stk svona mun ég eiga nýtt frændsystkin mun ég eiga viðskipti við þettaskítakompaní. Fyrr mun ég runka mér í eigin gröf! mun ég eiga nákvæmlega EKKERT mun ég eiga mína fyrstu milljón dollara mun ég eiga erfitt með svefn mun ég eiga risa svín ... Svo mun ég eiga notalegt kvöld. Það er margt áhugavert sem fólk mun eiga. Annars er það í óspurðum fréttum að í morgun stóð ég í dyragætt nokkurri, drakk kaffi og reykti sígarettu. Það var heitt inni, kalt úti. Mollan inni sveif út um gættina og blandaðist frostinu fyrir utan, svo það mynduðust svona bylgjandi taumar í loftinu. Ég horfði því á grenitré í hillingum, og svartan starrahóp spóka sig um á greinum þess. Þetta var geðveikt svona "fear and loathing in Las Vegas" upplifun! Allt í einu fann ég undarlega tilfinningu færast yfir mig, mér óaði við öllu í heiminum og mér skildist að ég stæði í raun á jarðarkúlu sem snerist í hringi. Allt var svo einfalt en þó skrýtið um leið. Ég hugsaði í fullri alvöru; Er ég orðinn ástfanginn? En fattaði um leið að mig svimaði bara af sígarettunni svona snemma morguns. Djöfull er langt síðan mig hefur svimað af sígó, vá. VIÐ MUNUM ÖLL DEYJA! ÖLL!! ÖLL DEYJA!!! Var þetta ekki svona temmilega óviðeigandi? Eitthvað verður maður að gera til að vera frumlegur.

1/17/2005

Sannlega sannlega segi ég yður að blogg þetta mun vera í tilvitnunum. En fyrst vil ég vera ögn sjálfhverfur og tala um mína eigin spegilmynd. Í mörg mörg ár glímdi ég við geðflækjur nefsins, mér fannst það of stórt. Ef Sigmund Freud mundi dáleiða mig og taka í sálgreiningarmeðferð, mundi ég rifja upp þegar mamma gagnrýndi mig fyrir að bora asnalega í nefið. Þá átti ég það til, í staðinn fyrir að snýta mér, að stinga vísifingri harkalega upp í nefholurnar og skófla út úr þeim í vaskinn. Ég var unglingur, á milli okkar mömmu geisaði einhverskonar þagnarstríð, en hún kommentaði á mig og lýsti því yfir, að nefið á mér væri örugglega svona stórt og útþanið sökum þessa ósiðar. Síðan þá hef ég alltaf horft rangeygður í spegilmynd mína. Hún sagði þetta hún mamma mín ég efa það ei, að allt það var satt er hún sagði. Í dag gef ég hinsvegar skít í útlit mitt, og gat því gert mér á vísindalegan hátt grein fyrir þessu: Þegar ég er með kiwi-hárklippingu og sléttrakaða vanga virðist nef mitt vera stórvaxin kartafla. Hinsvegar ef ég er með húfu á stærð við mikrófón-klippingu og skegg niður á bringu, þá verður nebbinn minn pínkuponsulítill eins og sherrítómatur. Ergó, allt er hégómi. Og þá get ég komið mér að þessum tilvitnunum. Hljómsveitin Stuðmenn geta verið alveg hreint óþolandi. Stuðmenn gerðu ágæta hluti hér í gamla daga, en ættu að vera löngu hættir þessu. Síbyljulagið "fönn fönn fönn fönn íslenskt fönn! Fönn fönn fönn fönn íslenskt fönn! fönn fönn fönn fönn íslenskt fönn! fönn fönn fönn fönn íslenskt fönn" segir allt sem segja þarf um óþarfa tilvist Stuðmanna. Lagið gerði mér hinsvegar grein fyrir því, hvaða ljóð ég lærði fyrst allra ljóða í þessum heimi:
Fönn
fannhvítt frá
Fönn
skeifan 11
Fönn
Það er alkunn staðreynd að það sem gerir ljóð að ljóði er skipting í línur, og því ákvað ég að skipta í línur útskýringu á uppflettiorðinu blámaður í gammel-norsk/forníslenskri orðabók Fritsners nokkurs:
Blámaðr
-
Bláleitr maðr
er kolblár á sinn líkam
engi hlutr er hvítr á
útan tenn
ok augu.
Blámaðr
biki svartari.
Svo á endanum snýr biblían aftur með sína undursamlegu speki. "Eins og í öllum söfnuðum hinna heilögu skulu konur þegja á safnaðarsamkomunum, því að ekki er þeim leyft að tala, heldur skulu þær vera undirgefnar, eins og líka lögmálið segir. En ef þær vilja fræðast um eitthvað, þá skulu þær spyrja eiginmenn sína heima. Því að það er ósæmilegt fyrir konu að tala á safnaðarsamkomu." (Nýja testamentið, 1. korintubréf. 14;33-36) Hér stendur skýrum stöfum, að konur mega allsekki tala í kirkjum. Halló! Halló. Hversu margir kvenprestar eru nú starfandi á Íslandi? Hellingur. Eru þær ekki síblaðrandi, heima og í kirkjum? Jú. Hvað gerist næst, verða hommar blessaðir af þjóðkirkjunni?! Ég veit það ekki. Amen.

1/13/2005

Seinast staðhæfði ég að þynnkudagurinn eftir Zubrowka fylleríið hafi verið bæði "skrautlegur og eftirminnilegur". Það var kannski ofsögum sagt, en frá honum verður samt að skýra svo því sé af lokið: Klukkan sjö morguninn eftir gat ég valið um tvennt: vera heima og mæta fordæmingu móður minnar á vondu líferni eða fara til vinnu sem byggingaverkamaður með heimsins mestu þynnku í hausnum. Þar sem móðir mín getur, ef hún vill, skorið af mér hausinn með sínum huglægu sverðum og breytt mér í grátandi 5 ára polla með sálfræðihernaði einum saman, ákvað ég að drulla mér út. Ég fór í sturtu, klæddist heimskautabúningi og kjagaði út um útidyrahurðina. Ég þurfti að gjöra svo vel og taka strætó númer 110 og ganga þónokkurn spöl að stoppistöðinni. Á leið minni til stoppistöðvarinnar var brekka ein, sem ég ákvað að ganga þvera og endilanga í stað þess að labba meðfram henni á gangstíg og fylgja svo 90 gráðu beygju beint upp. En eftir þessu sá ég, því í miðri brekkunni gerði ég mér á óyggjandi hátt grein fyrir því að hún var þakin mishæðóttum klaka, sleipum eins og olíu því rignt hafði á hann um nóttina. Þegar ég fattaði þetta var hnakkinn á mér þá þegar búinn að skella með dynk í jörðu. Þegar ég stóð upp fann ég óneitanlega fyrir því að ég var ennþá drukkinn, því áður en ég rétti úr löppunum var ég aftur dottinn á hnakkann með enn hærri dynk. Og trúðu mér, ég gat enga björg mér veitt né dregið úr fallinu, það var eins og risastór segull væri í hausnum á mér. Þegar ég datt í þriðja skiptið ákvað ég að skríða afganginn, og náði loks inn á sandi dreifðan gangstíg. Strætóferðin var sú allra versta lífsreynsla sem ég hef upplifað í bifreið. Ég settist upp við glugga og kældi ennið á rúðunni. Vagninn keyrði af stað. En í hvert skipti sem vagninn tók beygju, fannst mér eins og garnirnar vildu fara í öfuga átt. Og í hvert skipti sem hann fór yfir hraðahindrun, þá sá ég allt í móðu og missti jafnvægisskynið og í ofanálag vildi meltingarkerfið í heild sinni út um munninn. Ég man að ekki svo langt í burtu frá mér sat sæt stelpa, og ég reyndi að glápa á hana en varð að gefast upp fyrir þessari heiftarlegu sjóveiki, ég get ekki lýst henni öðruvísi en sem hvirfilbyli og ólgusjó í maganum. Loks þegar strætóinn var næstum kominn upp að Korpúlfsstöðum í Grafarvogi, hoppaði ég feginn út úr vagninum. En þá var ég svo úr mér genginn eftir baráttuna við að halda lífi, eða því sem næst, að ég þráði ekkert heitara en að leggjast aðeins niður. Nú var mér allsekkert bumbult og vildi ekki æla. Í dimmunni þarna, lagðist ég semsagt bakvið grátt strætóskýli, sem var eiginlega staðsett í garði fyrir framan blokk. Og hvílíkur unaður! Það seinasta sem ég hugsaði var "ætli nokkur sé að horfa á mig úr þessari blokk?" en þá held ég að svefninn hafi tekið völdin. Því það næsta sem ég vissi var að ég sá skært ljós, það skar mig í augun, tja, kannski eins og ef tunglið væri halógenkastari. Einhver dimm rödd sagði "halló, halló, ertu þarna?" Þá hafði í raun einhver úr blokkinni séð mig og hringt í lögguna í þokkabót. Samtal eitthvað á þessa leið átti sér svo stað, ég liggjandi og tveir löggukallar standandi yfir mér: - Er allt í lagi hjá þér vinurinn? - Ha jájá, ég er að fara í vinnuna. - Nú, fyrst þú ert að fara í vinnuna af hverju liggurðu þá hér? - Það er afþví ég byrja ekki að vinna fyrr en níu og verkstjórinn er ekki mættur svona snemma og þessvegna ákvað ég að drepa tímann aðeins. - Hvar ertu að vinna? - Hjá Tréfagi hf. -Hvað heitir verkstjórinn? - Hannes Ingólfsson. Svo stóð ég upp, þakkaði fyrir og kvaddi. Mér var hlýtt, klæddur í angórunærföt, tvöfaldar skíðabuxur og tvær úlpur. En samt var ég ennþá með þynnkuskjálfta. Ég kom því við í sjoppu á leið á byggingasvæðið, keypti mér kók, spræt og sódavatn og ákvað að þamba þetta allt í einu. Svo þegar ég var mættur, ákvað ég að fela mig á bakvið verkfæragám fram að kaffihléi sem ég og gerði. Já, í kaffihléinu gekk ég svo niðurlútur inn á kaffistofuna, en smiðirnir tveir urðu mjög glaðir að sjá mig, því það dregur hver dám af sínum sessunaut. "ho ha he!" hlógu þeir. Þessi óvænta samstaða held ég að hafi læknað mig, og dagurinn varð hreint og beint ánægjulegur. Það getur vel verið að þetta hafi verið langt og leiðinlegt sem ég skrifaði, en ég gerði það alveg óumbeðinn. Og þú last þetta alveg óumbeðið, svo enginn getur verið fúll út í neinn nema kannski Steinn Linnet sem las þetta af skyldurækni! Takk samt.

1/10/2005

Frönsku frullurnar eru nú farnar, en þær komu með vodka með sér. Vodka sem hét Zubrowka, ég tala í þátíð afþví flaskan er nú drukkin. Þetta vodka er kallað pólskt súrheysvodka á íslensku, það bragðast eins og hey og í flöskunni er langt grasstrá. Um leið og ég tók fyrsta sopann af heyvodkanu, komu löngu gleymdar minningar til mín, minningar sem ég átti frá því ég hafði seinast þambað þennan drykk, þá 17 ára gamall. Hér vil ég segja frá þessum minningaslitrum, sem mér finnst mig hálfpartinn hafa dreymt. Ég man, að ég var staddur uppi í MH með Elí nokkrum. Ég man eftir stanslausu heybragðinu í munninum og ráðaleysi okkar um hvað skyldi gera. Svo vorum við alltíeinu farnir að ganga í gegnum Hlíðahverfið í átt að miðbænum, en stoppuðum við í hverjum einasta bíl og athuguðum hvort dyrnar væru opnar. Ekki man ég þó eftir að hafa stolið neinu heldur rótuðum við upp öllu sem var í hanskahólfunum. En jú, markmiðið var að kenna sauðheimskum lýðnum lexíu: að læsa bílunum sínum og gera því grein fyrir að þjófar gætu verið á ferð, jafnvel á Íslandi. Því næst man ég að við fundum opna hurð á miðju lækjartorgi, létum mann í svörtum fötum fá áfengið okkar til geymslu og vorum skyndilega farnir að rökræða við strák sem var sí og æ að lesa uppúr biblíunni fyrir okkur. Ekki man ég hvað fór okkur fram þarna undir súðinni, ég sagði lítið en furðaði mig á því að í hvert skipti sem vinur minn fleygði einhverju fram guði til lasts, stakk trúarstrákurinn nefi sínu ofan í biblíuna, fletti blaðsíðunum eins og ráðagóði róbotinn og sagði svo og spurði svo "heyriði þetta!?". Svo man ég að ég fann myndavél á borðinu og tók myndir af öllu í kringum mig. Við enduðum í dimmu herbergi, þar sem fólk sat í hring og þagði. Það heyrðist ekkert nema kliður í drukkinni mannmergð á Lækjartorgi og einstaka öskur, því þetta var á þeim tíma sem skemmtistaðir lokuðu allir klukkan þrjú. Einhver sagði "við skulum biðja fyrir þessu vesæla og óheppna fólki". Mér finnst núna eins og ég hafi litið í kringum mig eins og vélmenni, sneri hausnum að vini mínum sem hafði lagt saman lófana í kjöltu sér, drúpti höfði og muldraði eitthvað. En þetta var ekki lengur vinur minn Elí, heldur vinur minn Raggi! (einhversstaðar hefur eitthvað gerst vegna einhvers) Ég greip í hann, hristi og sagði eitthvað eins og "hvað er að þér, ertu að verða geðveikur?" og dró hann út með látum, svo drúptu höfðin í kringum okkur litu upp. Dyravörður guðs lét okkur greinilega fá flöskuna aftur, því ég man næst eftir mér tyggjandi stráið úr flöskunni. Eitthvað rámar mig í að hafa grillað áldósir í gasgrilli. Já, og ég eyðilagði regnhlíf sem mamma mín hafði sérstaklega bannað mér að eyðileggja. Þetta man ég, því ég var edrú þegar hún bannaði mér að eyðileggja hana, og ég var þunnur þegar ég vaknaði upp og regnhlífin var eins og vírflækja við hliðina á mér(frá þessu get ég sagt þar sem 7 ár eru liðin og glæpurinn því fyrndur). Jú rétt! Þetta var regnhlíf þar sem maður gat ýtt á takka, og þá opnaðist hún að sjálfu sér. Og ef maður tók ekki hulstrið utan af henni, þá einfaldlega slengdist hún fram. Mig rámar í mörg uppglennt augu, augnhvítur og skelfingu þegar ég beindi regnhlífinni framan í fólk, leysti krafta hennar úr læðingi svo hún rétt snarstoppaði framan við nefbroddana. Þetta ætti ég að gera mér að leik oftar, og mæli með. Jú, vissulega man ég eftir grænni ælu sem endaði einhverra hluta vegna fram af viðarbrú og ofan í einhverskonar mýri. Ég horfði vel og lengi á þessa ælu, dáðist ekki beint að henni. Ég man. Eftir fitubollu sem ég kyssti. Ég hafði beðið hana um að kenna mér að kyssa, því ég kynni það ekki. Hún hét einhverju nafni sem ég man ekki, en hún var frá "Höbbn í Hoddnafirði". Hún var alltaf að segja Höbbníhoddnafirði eitthvað. Og hún átti samkynhneigðan vin, sem mér fannst mjög skemmtilegur þar til ég uppgötvaði að hann var hommi. Þá gólaði ég oft: "Ojj farðu frá mér, ég vil ekki fá AIDS!". Hann var með ljósa lokka, bros á vör og blóm í hári. Það er ótrúlegt hvað áfengi getur látið mann hugsa rétt. Já, fleira kom nú ekki upp í hugann við að finna bragðið af hinu yndislega Zubrowka, allavega ekki sem ég get tengt óyggjandi við einmitt þetta fyllerí. En guð má vita, að dagurinn á eftir var ekki minna skrautlegur og eftirminnilegur.

1/05/2005

Ég fór á Þingvelli í dag með þremur frönskum drósum. Það var eins og við værum fyrsta mannfólkið sem steig fæti þangað, djúpur snjór yfir öllu og ekki eitt einasta mannaspor að sjá, túristar fjarri, góðu heilli, enda eru þeir ljót sjónmengun þó þeir séu svosem ágætir og megi ekkert endilega missa sín. Rétt áður en við stigum aftur upp í bílinn og ætluðum heim, ákvað ég að sjá Peningagjá í myrkri og kíkti þangað. Klettarnir til beggja hliða, vatnið eins og djúpur spegill og silfurpeningarnir á botninum glóðu og mér fannst eins og ég væri að horfa á stjörnubrautina Milkívei í vatninu, nema stjörnurnar voru rétt hjá mér. Síðan blés vindurinn ögn og gáraði yfirborð vatnsins, svo dróst úr útlínum silfurklinksins, það ummyndaðist í hvít norðurljós sem dönsuðu sinn slæðudans í hylnum. Á þetta horfði ég fram af brúarhandriðinu og datt í hug að draugur gæti læðst að og hent mér ofaní. Svo keyrðum við í bæinn. En það er eitthvað við bæjarlífið sem breytir manni í kaldhæðinn og órómantískan mann. Eftir að hafa keypt mér sígó úti í sjoppu og keyrði heim, fór ég að hugsa um Peningagjá, og varð stórhneykslaður á sjálfum mér: "eins og stjörnur í vatninu" ?! Djöfulsins tussu klisja. En ég get kannski sagt frá allri Þingvallarferðinni fyrst ég er byrjaður á því. Á Mosfellsheiði var mikið fjúk svo varla sást í veginn og það var mjög spennandi að sjá hvort ég mundi keyra útaf eða ekki. Í förinni var ég, hundurinn Hera, Melodíí, Alice og Fanní. Alice og Fanní eru eineggja tvíburar. Ég þekki þær samt í sundur, en ekki á útlitinu einu heldur á því hvernig karakterar þær eru. Alice hefur fallegri og saklausari augu. Fanní er hinsvegar oft með reiðilegt augnaráð, augu sem tortryggja. Alice er yfirhöfuð fallegri í útliti, og það eina sem gerir hana fallegri en systur sína er að hún er léttlyndari og hamingjusamari. Ég er ansi hræddur um að þunglyndi geti gert fólk ljótt, það beinir ljósi sínu á ófullkomin nef og graftarbólur á meðan gleðin felur slíka hluti. Jæja, Fanní er líka mun skynsamari stúlka. En skynsemi getur verið alveg hrikalega leiðinleg, hún getur valdið löngum reikistefnum um hvernig má spara 50 krónur. Auðvitað er skynsemi góð, en hún getur tekið völdin. T.d. held ég stundum að Fúsi bróðir sé andsetinn af skynsemi, skynsemi felst í því held ég að tala og hugsa um hlutina í staðinn fyrir að einfaldlega framkvæma þá og sjá hvað verður. Í mörgum tilfellum er skynsemi því eintóm tímaeyðsla og töf, skynsemi lætur mann bíða í óþörfum huglægum röðum. Skynsemi getur svosem komið í veg fyrir að maður týni GSM símanum sínum eða að bíllinn fari í gang á morgnana, en hún getur drepið möguleg ævintýri, t.d. gæti skynsemi getað fengið mig til að snúa við á Mosfellsheiði í dag og fara heim, en það minnir mig á Þingvelli sem ég var víst að tala um. Í stuttu máli: Komum á Þingvelli, skoðuðum Almannagjá, skoðuðum stóru sprunguna þar sem meginlöndin tvístrast, löbbuðum í hnédjúpum snjó um hlíðar að leita að fossinum sem ég fann svo ekki, gengum til baka að bílnum. Allan tímann sáum við aldrey neina manneskju. En við ákváðum að kíkja á Þingvallakirkju og burstabæinn. Á leiðinni þangað, án þess að gera neitt boð á undan sér, birtist einhver hvítur og grár hundur. Allt í einu var hann farinn að leika við Heru, og Heru líkaði mjög vel við hann; bæði fnusaði af honum og dillaði skottinu. Þetta var bersýnilega góður hundur, því Hera er góður hundþekkjari og gefur skít í alla sem eru leiðinlegir. En hvar var eigandinn? Og hvar var ólin sem átti að vera á honum... þetta var draugahundur. Ég er viss um það, enda vorum við rétt hjá kirkjugarðinum. Þetta var voffi sem hafði sloppið úr leiði framliðins manns. Við bönkuðum tvisvar á kirkjuna, bank bank, líka á burstabæinn en þar var enginn. Svo hvarf draugahundurinn og við gengum til bílsins, nú var farið að rökkva. Rétt áður en við stigum aftur upp í bílinn og ætluðum heim, ákvað ég að sjá Peningagjá í myrkri og kíkti þangað. Klettarnir til beggja hliða, vatnið eins og djúpur spegill og silfurpeningarnir á botninum glóðu og mér fannst eins og ég væri að horfa á stjörnubrautina Milkívei í vatninu, nema stjörnurnar voru rétt hjá mér. Síðan blés vindurinn ögn og gáraði yfirborð vatnsins, svo dróst úr útlínum silfurklinksins, það ummyndaðist í hvít norðurljós sem dönsuðu sinn slæðudans í hylnum. Á þetta horfði ég fram af brúarhandriðinu og snýtti blóðugu hori út úr sitthvorri nösinni, svo það datt ofan í þessar hallærislegu dansandi slæður.

Bloggsafn