2/18/2005

Biturleiki. Við lifum á tímum mikilla félagslegra einangrana. Nei það er ekki satt. Ég segi þetta bara afþví mér datt í hug að ég væri félagslega einangraður. En þá uppgötvaði ég að ástæðan var einfaldlega sú að Guðjón Idir Abbes Malik er farinn til útlanda. Hann er sá eini sem hringir í mig og sendir mér sms. Ég fæ hálfgert samviskubit yfir því að verða alltaf hálf fúll þegar ég fæ sms frá Gauja, en það er af því ég veit frá hverjum sms-ið er. "Bíb bíb" í símanum = Gauji. Ég skil ekkert í þessu? Af hverju er ég svona óvinsæll? Ó-vin-sæll. Ég sem er svo víðsýnn! Jú jú, ég veit svosem að það eru allir uppteknir við að smokra giftingahringjum uppá puttana á sér eða að stinga matarjukki uppí einhver börn. Ég ætla ekki einusinni að byrja að tala um þann viðbjóð sem ég hef á öllu slíku. Já já, lifið bara hamingjusöm til æviloka og sendið mér kort á jólunum! Munið bara, að hlakka til að deyja. Ef þið gerið það mun allt fara vel, því tilhlökkunin gerir líf ykkar að einni stórri eftirvæntingu. En aldrey hringir neinn nema Gaujjji. Það er í raun ótrúlegt að fólk skuli ekki flykkjast að mér. Með hugleiðingu og lestri bóka hef ég tekið mikið forskot á lífsþroskann. Ég er mjög umburðalyndur maður og get þolað allskyns duttlunga í fólki. En duttlungar eru einmitt það sem gerir fólk óþolandi í augum annars fólks. En fólk skilur þetta bara ekki! Það er svo vitlaust! Mannkynið þolir ekki hvort annað, afþví allir vilja að allir aðlagi sig að öllum. En það er ekki hægt! Og í mínu tilviki...því umburðalyndari sem ég verð því minna þoli ég umburðaleysið í öllum öðrum. Mikið vildi ég að aðrir væru eins og ég, segi ég nú bara eins og kerlingin sagði. Kötturinn Pavel virðist ennþá elska mig útaf lífinu, ekki þarf ég að beita félagslegum hæfileikum mínum á hann. Hann kom einn daginn með ól um hálsinn, og þar sá ég hvað hann heitir: Snælda. Það er einhver Ragga sem á hann. Mikið finnst mér nafnið snælda vera þröngsýnt! Tuff. Kisulóran býr með mér núna, og heitir Pavela. Pavela! Djöfullinn sjálfur, hún er alltaf að brýna klærnar á sófanum hennar Saló ömmu! Nú hendi ég stílabók í hana!! Nú hef ég hent stílabók í hana, og hún fór í fýlu, hljóp út um glugga. Kannski kemur hún aldrey aftur. Nú koma nokkrar senur úr raunveruleikanum: Fjölskylda situr þögul og horfir á leynilögguþátt í sjónvarpinu. Hún hefur setið þar þögul lengi lengi. Allt í einu spyr einn fjölskyldumeðlimurinn "hvað er að frétta?". Hann býst við svarinu "ekki neitt" og friði til að horfa á imbann. En einn fer að segja frá einhverju sem átti sér stað í lífi hans, frá samtali við gamla konu sem heimtaði að hann dansaði enskan vals. Saga fjölskyldumeðlimarins varð sífellt innblásnari og innblásnari, skemmtilegri og fyndnari þar til hann sá augu fjölskyldunnar flökta til og frá, á hann og sjónvarpið til skiptis. Fyrst voru augun ráðvillt, en síðan pirruð, eins og þau vildu segja "uss, þú ert að trufla sjónvarpið!". Sögumaðurinn þagnaði en sjónvarpið hélt áfram að kyrja. Ég vorkenni svo oft góðviljuðum miðaldra konum. Um daginn sat ég við hringborð með tveimur körlum, þremur miðaldra konum og stúlku. Lítið þekktumst við innbyrðis, og andrúmsloftið heldur stirt. Ein þessara kvenna var mjó, rauðhærð og frekar uppþornuð einhvernveginn. Ég vorkenndi henni ekki. Önnur var stór og skjólgóð, með kantskorið brúnt hár við eyru og sköruleg. Henni vorkenndi ég ekki. En þarna var ein, hvíthærð og síbrosandi. Það er eins og brosið sem sú hvíthærða gefur frá sér, þurfi alltaf stuðning. Ef hún segir eitthvað kímileit eins og broskall 8?) , þarf hún alltaf að horfa beint í augun á einhverjum og hann helst að kinka kolli brosandi á móti. Henni vorkenni ég, kannski afþví mér þykir vænt um veikbyggðari börn guðs. En við sátum þarna við hringborðið, og hvíthærða konan sagði brandara. Það fannst engum hann fyndinn, og enginn hló. Ég hinsvegar var svo óheppinn, að þurfa skyndilega að hósta. Hún hélt að mér hefði svelgst á, vegna fyndni brandarans. Þetta vissi ég (þ.e. hvernig hún hugsaði) á meðan ég hóstaði niðurlútur með spennta magavöðva. Í því sem ég lyfti upp hausnum ákveð ég að vera heiðarlegur, og segja með augum mínum við hana að ég hafi ekki verið að hósta afþví brandarinn hennar hitti í mark, þvert á móti... Það fór eins og ég hélt, stóru bláu augun hennar horfðu með eftirvæntingu á mig. En ég varð beinlínis vitni að fuglshjartanu í henni brotna saman, þegar hún sá að mér var ekki hlátur í huga. Þessi brostnu augu, mig langaði svo að faðma hana og segja "æ grey kerlingahró, þetta var samt góður brandari!". Einhverntíman hugsaði ég þetta, en hef engum sagt frá því. Ég skammast mín svo. En það verður að líta dagsins ljós. Það er heilög skylda mín að opinbera sannleikann!
Frægur sigur!
Jæja, það sem ég hugsaði var: Samtal á milli Guðmundar Arnlaugssonar og Þorgerðar Ingólfsdóttur, umræðuefnið var körfubolti. Mummi sagði: "Þorgerður, þegar Níels er í stuði stendur honum enginn á sporði". Hallærislegt. Nú hef ég sagt allt sem mig langar að segja um aldur og ævi, amen. Ég hef verið haldinn illvígum sjúkdómi í mörg ár, sjúkdómi sem m.a. systkini mín hata. Stoltur hef ég ætíð sagst ætla að gera allt á morgun, en aldrey gert það afþví að á morgun er alltaf á morgun alveg sama hvenær. Nú ætla ég að taka þessa afsökun af stefnuskrá lífs míns, því í dag er á morgun. Það þýðir ekki að ég ætli að gera allt í dag, afþví það eru svo margir morgundagar sem ég skulda. En hluti af þessu átaki er að hætta að blogga í dag, og ég stend við það fjandinn hafi það punktur og basta. Þetta er búið að dragast alltof mikið á langinn, og ég þakka þér kærlega fyrir allan þennan þolinmóða lestur. Ég unni þér, og mundu að láta þér þykja vænt um alla, það er miklu erfiðara en að hata þá en um leið mun þægilegra, og láttu þér þykja vænt um brjóst. Aldrey skaltu misþyrma brjóstum, þó þú sért sadómasókisti. Það er fátt sem hryggir mig meir en óvirðing fyrir brjóstkoddum kvenna, því allraheilagasta í heimi hér. Ég fæ bara ógeðisfiðring í rassinn þegar einhver minnist á víking með sverð sem gengur um og sker brjóst af konum. Megi sá víkingur frjósa í Niflheimum. En ef þú villt fá reglulega sent stutt ársfjórðungsuppgjör, þ.e. fjögur bréf á ári, skaltu senda mér e-mail með í-meilinu þínu. Alveg sama hver þú ert, þú mátt jafnvel villa þér á heimildir, sama er mér. Stílfræði bloggsins segir: "Ef ljúka skal bloggi, og ríta ei meir, skulu orðin vera orkurík sem tíu hvirfilbyljir í iðrum jarðar. Sé þetta eigi gjört, mun eilíf bloggsamviska naga bloggarann í punginn sé bloggarinn karl. En ef bloggarinn er ekki karl, heldur kona, mun samviskan sannlega bíta hana á stað ekki svo fjarri þeim stað, þar er pungur væri annars ef bloggarinn væri ekki kona heldur karl" En þar sem ég kann ekki að gera slíkt, treysti ég á Stefán Hörð að klára þetta fyrir mig. Þetta skrifaði hann í ljóðabókinni 'Tengsl'.
AÐ FARGA MINNINGU
.
.
Sá sem kemur aftur
er aldrei sá sami
og fór
.
.
Sú sem heilsar
er aldrei sú sama
og kvaddi
.
.
Ævintýri
eru eldfim
bæði lífs og liðin
.
.
Sagnir um öskufall
við endurfundi
hefur margur sannreynt

Engin ummæli:

Bloggsafn