1/05/2005

Ég fór á Þingvelli í dag með þremur frönskum drósum. Það var eins og við værum fyrsta mannfólkið sem steig fæti þangað, djúpur snjór yfir öllu og ekki eitt einasta mannaspor að sjá, túristar fjarri, góðu heilli, enda eru þeir ljót sjónmengun þó þeir séu svosem ágætir og megi ekkert endilega missa sín. Rétt áður en við stigum aftur upp í bílinn og ætluðum heim, ákvað ég að sjá Peningagjá í myrkri og kíkti þangað. Klettarnir til beggja hliða, vatnið eins og djúpur spegill og silfurpeningarnir á botninum glóðu og mér fannst eins og ég væri að horfa á stjörnubrautina Milkívei í vatninu, nema stjörnurnar voru rétt hjá mér. Síðan blés vindurinn ögn og gáraði yfirborð vatnsins, svo dróst úr útlínum silfurklinksins, það ummyndaðist í hvít norðurljós sem dönsuðu sinn slæðudans í hylnum. Á þetta horfði ég fram af brúarhandriðinu og datt í hug að draugur gæti læðst að og hent mér ofaní. Svo keyrðum við í bæinn. En það er eitthvað við bæjarlífið sem breytir manni í kaldhæðinn og órómantískan mann. Eftir að hafa keypt mér sígó úti í sjoppu og keyrði heim, fór ég að hugsa um Peningagjá, og varð stórhneykslaður á sjálfum mér: "eins og stjörnur í vatninu" ?! Djöfulsins tussu klisja. En ég get kannski sagt frá allri Þingvallarferðinni fyrst ég er byrjaður á því. Á Mosfellsheiði var mikið fjúk svo varla sást í veginn og það var mjög spennandi að sjá hvort ég mundi keyra útaf eða ekki. Í förinni var ég, hundurinn Hera, Melodíí, Alice og Fanní. Alice og Fanní eru eineggja tvíburar. Ég þekki þær samt í sundur, en ekki á útlitinu einu heldur á því hvernig karakterar þær eru. Alice hefur fallegri og saklausari augu. Fanní er hinsvegar oft með reiðilegt augnaráð, augu sem tortryggja. Alice er yfirhöfuð fallegri í útliti, og það eina sem gerir hana fallegri en systur sína er að hún er léttlyndari og hamingjusamari. Ég er ansi hræddur um að þunglyndi geti gert fólk ljótt, það beinir ljósi sínu á ófullkomin nef og graftarbólur á meðan gleðin felur slíka hluti. Jæja, Fanní er líka mun skynsamari stúlka. En skynsemi getur verið alveg hrikalega leiðinleg, hún getur valdið löngum reikistefnum um hvernig má spara 50 krónur. Auðvitað er skynsemi góð, en hún getur tekið völdin. T.d. held ég stundum að Fúsi bróðir sé andsetinn af skynsemi, skynsemi felst í því held ég að tala og hugsa um hlutina í staðinn fyrir að einfaldlega framkvæma þá og sjá hvað verður. Í mörgum tilfellum er skynsemi því eintóm tímaeyðsla og töf, skynsemi lætur mann bíða í óþörfum huglægum röðum. Skynsemi getur svosem komið í veg fyrir að maður týni GSM símanum sínum eða að bíllinn fari í gang á morgnana, en hún getur drepið möguleg ævintýri, t.d. gæti skynsemi getað fengið mig til að snúa við á Mosfellsheiði í dag og fara heim, en það minnir mig á Þingvelli sem ég var víst að tala um. Í stuttu máli: Komum á Þingvelli, skoðuðum Almannagjá, skoðuðum stóru sprunguna þar sem meginlöndin tvístrast, löbbuðum í hnédjúpum snjó um hlíðar að leita að fossinum sem ég fann svo ekki, gengum til baka að bílnum. Allan tímann sáum við aldrey neina manneskju. En við ákváðum að kíkja á Þingvallakirkju og burstabæinn. Á leiðinni þangað, án þess að gera neitt boð á undan sér, birtist einhver hvítur og grár hundur. Allt í einu var hann farinn að leika við Heru, og Heru líkaði mjög vel við hann; bæði fnusaði af honum og dillaði skottinu. Þetta var bersýnilega góður hundur, því Hera er góður hundþekkjari og gefur skít í alla sem eru leiðinlegir. En hvar var eigandinn? Og hvar var ólin sem átti að vera á honum... þetta var draugahundur. Ég er viss um það, enda vorum við rétt hjá kirkjugarðinum. Þetta var voffi sem hafði sloppið úr leiði framliðins manns. Við bönkuðum tvisvar á kirkjuna, bank bank, líka á burstabæinn en þar var enginn. Svo hvarf draugahundurinn og við gengum til bílsins, nú var farið að rökkva. Rétt áður en við stigum aftur upp í bílinn og ætluðum heim, ákvað ég að sjá Peningagjá í myrkri og kíkti þangað. Klettarnir til beggja hliða, vatnið eins og djúpur spegill og silfurpeningarnir á botninum glóðu og mér fannst eins og ég væri að horfa á stjörnubrautina Milkívei í vatninu, nema stjörnurnar voru rétt hjá mér. Síðan blés vindurinn ögn og gáraði yfirborð vatnsins, svo dróst úr útlínum silfurklinksins, það ummyndaðist í hvít norðurljós sem dönsuðu sinn slæðudans í hylnum. Á þetta horfði ég fram af brúarhandriðinu og snýtti blóðugu hori út úr sitthvorri nösinni, svo það datt ofan í þessar hallærislegu dansandi slæður.

Bloggsafn