1/13/2005

Seinast staðhæfði ég að þynnkudagurinn eftir Zubrowka fylleríið hafi verið bæði "skrautlegur og eftirminnilegur". Það var kannski ofsögum sagt, en frá honum verður samt að skýra svo því sé af lokið: Klukkan sjö morguninn eftir gat ég valið um tvennt: vera heima og mæta fordæmingu móður minnar á vondu líferni eða fara til vinnu sem byggingaverkamaður með heimsins mestu þynnku í hausnum. Þar sem móðir mín getur, ef hún vill, skorið af mér hausinn með sínum huglægu sverðum og breytt mér í grátandi 5 ára polla með sálfræðihernaði einum saman, ákvað ég að drulla mér út. Ég fór í sturtu, klæddist heimskautabúningi og kjagaði út um útidyrahurðina. Ég þurfti að gjöra svo vel og taka strætó númer 110 og ganga þónokkurn spöl að stoppistöðinni. Á leið minni til stoppistöðvarinnar var brekka ein, sem ég ákvað að ganga þvera og endilanga í stað þess að labba meðfram henni á gangstíg og fylgja svo 90 gráðu beygju beint upp. En eftir þessu sá ég, því í miðri brekkunni gerði ég mér á óyggjandi hátt grein fyrir því að hún var þakin mishæðóttum klaka, sleipum eins og olíu því rignt hafði á hann um nóttina. Þegar ég fattaði þetta var hnakkinn á mér þá þegar búinn að skella með dynk í jörðu. Þegar ég stóð upp fann ég óneitanlega fyrir því að ég var ennþá drukkinn, því áður en ég rétti úr löppunum var ég aftur dottinn á hnakkann með enn hærri dynk. Og trúðu mér, ég gat enga björg mér veitt né dregið úr fallinu, það var eins og risastór segull væri í hausnum á mér. Þegar ég datt í þriðja skiptið ákvað ég að skríða afganginn, og náði loks inn á sandi dreifðan gangstíg. Strætóferðin var sú allra versta lífsreynsla sem ég hef upplifað í bifreið. Ég settist upp við glugga og kældi ennið á rúðunni. Vagninn keyrði af stað. En í hvert skipti sem vagninn tók beygju, fannst mér eins og garnirnar vildu fara í öfuga átt. Og í hvert skipti sem hann fór yfir hraðahindrun, þá sá ég allt í móðu og missti jafnvægisskynið og í ofanálag vildi meltingarkerfið í heild sinni út um munninn. Ég man að ekki svo langt í burtu frá mér sat sæt stelpa, og ég reyndi að glápa á hana en varð að gefast upp fyrir þessari heiftarlegu sjóveiki, ég get ekki lýst henni öðruvísi en sem hvirfilbyli og ólgusjó í maganum. Loks þegar strætóinn var næstum kominn upp að Korpúlfsstöðum í Grafarvogi, hoppaði ég feginn út úr vagninum. En þá var ég svo úr mér genginn eftir baráttuna við að halda lífi, eða því sem næst, að ég þráði ekkert heitara en að leggjast aðeins niður. Nú var mér allsekkert bumbult og vildi ekki æla. Í dimmunni þarna, lagðist ég semsagt bakvið grátt strætóskýli, sem var eiginlega staðsett í garði fyrir framan blokk. Og hvílíkur unaður! Það seinasta sem ég hugsaði var "ætli nokkur sé að horfa á mig úr þessari blokk?" en þá held ég að svefninn hafi tekið völdin. Því það næsta sem ég vissi var að ég sá skært ljós, það skar mig í augun, tja, kannski eins og ef tunglið væri halógenkastari. Einhver dimm rödd sagði "halló, halló, ertu þarna?" Þá hafði í raun einhver úr blokkinni séð mig og hringt í lögguna í þokkabót. Samtal eitthvað á þessa leið átti sér svo stað, ég liggjandi og tveir löggukallar standandi yfir mér: - Er allt í lagi hjá þér vinurinn? - Ha jájá, ég er að fara í vinnuna. - Nú, fyrst þú ert að fara í vinnuna af hverju liggurðu þá hér? - Það er afþví ég byrja ekki að vinna fyrr en níu og verkstjórinn er ekki mættur svona snemma og þessvegna ákvað ég að drepa tímann aðeins. - Hvar ertu að vinna? - Hjá Tréfagi hf. -Hvað heitir verkstjórinn? - Hannes Ingólfsson. Svo stóð ég upp, þakkaði fyrir og kvaddi. Mér var hlýtt, klæddur í angórunærföt, tvöfaldar skíðabuxur og tvær úlpur. En samt var ég ennþá með þynnkuskjálfta. Ég kom því við í sjoppu á leið á byggingasvæðið, keypti mér kók, spræt og sódavatn og ákvað að þamba þetta allt í einu. Svo þegar ég var mættur, ákvað ég að fela mig á bakvið verkfæragám fram að kaffihléi sem ég og gerði. Já, í kaffihléinu gekk ég svo niðurlútur inn á kaffistofuna, en smiðirnir tveir urðu mjög glaðir að sjá mig, því það dregur hver dám af sínum sessunaut. "ho ha he!" hlógu þeir. Þessi óvænta samstaða held ég að hafi læknað mig, og dagurinn varð hreint og beint ánægjulegur. Það getur vel verið að þetta hafi verið langt og leiðinlegt sem ég skrifaði, en ég gerði það alveg óumbeðinn. Og þú last þetta alveg óumbeðið, svo enginn getur verið fúll út í neinn nema kannski Steinn Linnet sem las þetta af skyldurækni! Takk samt.

1/10/2005

Frönsku frullurnar eru nú farnar, en þær komu með vodka með sér. Vodka sem hét Zubrowka, ég tala í þátíð afþví flaskan er nú drukkin. Þetta vodka er kallað pólskt súrheysvodka á íslensku, það bragðast eins og hey og í flöskunni er langt grasstrá. Um leið og ég tók fyrsta sopann af heyvodkanu, komu löngu gleymdar minningar til mín, minningar sem ég átti frá því ég hafði seinast þambað þennan drykk, þá 17 ára gamall. Hér vil ég segja frá þessum minningaslitrum, sem mér finnst mig hálfpartinn hafa dreymt. Ég man, að ég var staddur uppi í MH með Elí nokkrum. Ég man eftir stanslausu heybragðinu í munninum og ráðaleysi okkar um hvað skyldi gera. Svo vorum við alltíeinu farnir að ganga í gegnum Hlíðahverfið í átt að miðbænum, en stoppuðum við í hverjum einasta bíl og athuguðum hvort dyrnar væru opnar. Ekki man ég þó eftir að hafa stolið neinu heldur rótuðum við upp öllu sem var í hanskahólfunum. En jú, markmiðið var að kenna sauðheimskum lýðnum lexíu: að læsa bílunum sínum og gera því grein fyrir að þjófar gætu verið á ferð, jafnvel á Íslandi. Því næst man ég að við fundum opna hurð á miðju lækjartorgi, létum mann í svörtum fötum fá áfengið okkar til geymslu og vorum skyndilega farnir að rökræða við strák sem var sí og æ að lesa uppúr biblíunni fyrir okkur. Ekki man ég hvað fór okkur fram þarna undir súðinni, ég sagði lítið en furðaði mig á því að í hvert skipti sem vinur minn fleygði einhverju fram guði til lasts, stakk trúarstrákurinn nefi sínu ofan í biblíuna, fletti blaðsíðunum eins og ráðagóði róbotinn og sagði svo og spurði svo "heyriði þetta!?". Svo man ég að ég fann myndavél á borðinu og tók myndir af öllu í kringum mig. Við enduðum í dimmu herbergi, þar sem fólk sat í hring og þagði. Það heyrðist ekkert nema kliður í drukkinni mannmergð á Lækjartorgi og einstaka öskur, því þetta var á þeim tíma sem skemmtistaðir lokuðu allir klukkan þrjú. Einhver sagði "við skulum biðja fyrir þessu vesæla og óheppna fólki". Mér finnst núna eins og ég hafi litið í kringum mig eins og vélmenni, sneri hausnum að vini mínum sem hafði lagt saman lófana í kjöltu sér, drúpti höfði og muldraði eitthvað. En þetta var ekki lengur vinur minn Elí, heldur vinur minn Raggi! (einhversstaðar hefur eitthvað gerst vegna einhvers) Ég greip í hann, hristi og sagði eitthvað eins og "hvað er að þér, ertu að verða geðveikur?" og dró hann út með látum, svo drúptu höfðin í kringum okkur litu upp. Dyravörður guðs lét okkur greinilega fá flöskuna aftur, því ég man næst eftir mér tyggjandi stráið úr flöskunni. Eitthvað rámar mig í að hafa grillað áldósir í gasgrilli. Já, og ég eyðilagði regnhlíf sem mamma mín hafði sérstaklega bannað mér að eyðileggja. Þetta man ég, því ég var edrú þegar hún bannaði mér að eyðileggja hana, og ég var þunnur þegar ég vaknaði upp og regnhlífin var eins og vírflækja við hliðina á mér(frá þessu get ég sagt þar sem 7 ár eru liðin og glæpurinn því fyrndur). Jú rétt! Þetta var regnhlíf þar sem maður gat ýtt á takka, og þá opnaðist hún að sjálfu sér. Og ef maður tók ekki hulstrið utan af henni, þá einfaldlega slengdist hún fram. Mig rámar í mörg uppglennt augu, augnhvítur og skelfingu þegar ég beindi regnhlífinni framan í fólk, leysti krafta hennar úr læðingi svo hún rétt snarstoppaði framan við nefbroddana. Þetta ætti ég að gera mér að leik oftar, og mæli með. Jú, vissulega man ég eftir grænni ælu sem endaði einhverra hluta vegna fram af viðarbrú og ofan í einhverskonar mýri. Ég horfði vel og lengi á þessa ælu, dáðist ekki beint að henni. Ég man. Eftir fitubollu sem ég kyssti. Ég hafði beðið hana um að kenna mér að kyssa, því ég kynni það ekki. Hún hét einhverju nafni sem ég man ekki, en hún var frá "Höbbn í Hoddnafirði". Hún var alltaf að segja Höbbníhoddnafirði eitthvað. Og hún átti samkynhneigðan vin, sem mér fannst mjög skemmtilegur þar til ég uppgötvaði að hann var hommi. Þá gólaði ég oft: "Ojj farðu frá mér, ég vil ekki fá AIDS!". Hann var með ljósa lokka, bros á vör og blóm í hári. Það er ótrúlegt hvað áfengi getur látið mann hugsa rétt. Já, fleira kom nú ekki upp í hugann við að finna bragðið af hinu yndislega Zubrowka, allavega ekki sem ég get tengt óyggjandi við einmitt þetta fyllerí. En guð má vita, að dagurinn á eftir var ekki minna skrautlegur og eftirminnilegur.

Bloggsafn