1/26/2005

Þegar undir skörðum mána / kulið feykir dánu laufi / mun ég eiga þig að rósu. hu hu humm. Einusinni vildi ég ekki hafa teljara á síðunni minni, afþví ég vildi ekki vita hversu fáir læsu. En eftir því sem innihald síðunnar varð æ meira innihaldslaust blaður, þá setti ég teljara upp og komst að því að 25 innlit eiga sér stað daglega. Ég bar mig saman við teljarann hans Braga Bergþórssonar, og hann fær um 75 á dag minnir mig. Ég fékk minnimáttarkennd, hvað hefur hann sem ég hef ekki? Svo komst ég að því: hann hefur myndir. Sjálfsálitið mitt getur huggað sig og blekkt við þá tilhugsun, að Bragi sé með fullt af myndum á síðunni sinni sem annað fólk linkar á, og í hvert skipti sem einhver skoðar mynd þá fær Bragi það skráð sem flettingu. Segjum það. En Gaui setti líka upp teljara, og varð fyrir vonbrigðum með innlitin. "Bara fimmtán á dag, mér finnst það glaaaatað". En það er ekki fjöldi gesta sem skiptir máli, heldur gæði lesandans. Og þar sem ég efast ekki um að þú sért eðalmanneskja, elsku besti lesandinn minn, þá hef ég engar áhyggjur. En þó að þú sért lesandi í karlkyni og ég tali við þig sem slíkan, þýðir það ekki endilega að ég sé ekki að tala við þig, kona mín góð! Því þú ert yndisleg kona, með tvö brjóst og læri. Þú veldur hungri hjá körlum! Og þó ég tali við þig sem konu, þýðir það ekki að þú sért ekki karl. Því innra með hverjum karli býr sál, og sálin er kynlaus, því sálin er andi guðs sem er hvorki karl né kona. Það sést í augunum, þegar ég horfi djúpt í augu þín, og trúðu mér ég er að horfa núna þó ekki sjáirðu mig. Ég er inni í skjánum, bakvið fosfórið. Ó, augu þín, elsku bróðir, eru svo kynlaus. Ég ætti í raun að ávarpa þig í hvorugkyni elsku hjartans lesyndið mitt! En til hvers þetta ljóð í byrjun færslunnar? Ástæðan er lögmál bloggstílfræðinnar: Gott blogg skal ávalt byrja á góðri setningu, því fólki sem leiðist kíkir á sama bloggið oft á dag, dag eftir dag. Vond upphafssetning á bloggi sem sjaldan er uppfært, getur hreinlega verið mannskemmandi. Og af hverju þá ekki að byrja bloggið sitt á einni fegurstu orðaröð íslenskrar tungu, þessu ljóði eftir Stefán Hörð Grímsson úr bókinni Svartálfadans? Lestu nú ljóðið aftur ljúfi kúturinn minn, dúfan mín!

1/24/2005

Pabbi minn spyr mig oft á dag, hvað sé að frétta. Ég svara honum alltaf, að ekkert sé að frétta. Svona hefur þetta gengið í mörg ár. Það er augljóst, að lífið og þá sérstaklega líf mitt kannski, er tíðindalaust. Mikið ofboðslega er leiðinlegt að lifa þvílíku lífi. Ef einhver mundi ræna mig eða kýla mig, það væri strax eitthvað. En nei. Eins og alltaf gerast hinir mest krassandi atburðir lífs míns í draumum mínum. Rétt áðan datt pabbi einmitt fram af bryggju, ofan í höfn fulla af klökum. Ég togaði hann uppúr, dreif hann inn í nærliggjandi skip þar sem Steingrímur J. Sigfússon vildi ekki leyfa mér að þurrka pabba minn. Í gærnótt var Guðmundur Rúnar, öðru nafni Grunar, að túlka gamlar læknaskýrslur um mig. Samkvæmt öllu mun ég deyja mjög snögglega í framtíðinni, úr einhverskonar heilablæðingu. Það eru því blikur á lofti. Ég mun sjá eftir því að hafa einhverntíman viljað lifa tíðindaríku lífi. Í raun hef ég alltaf verið ótrúlega heppinn. Til dæmis bara í gær, þá fannst mér ég vera lukkunnar pamfíll. Ég sat á hinum ágæta skemmtistað Sirkus og horfði á stúlkukind sem vill vera gjörningalistakona. Ég veit ekki hvort gjörningur hafi verið í gangi, en hún var að hreyfa skankana uppi á borði. Það skein af henni greddan, hún hreyfði rassinn upp og niður og virtist hugsa "æh hvað ég vil fá typpi í mig, arrg". Augun voru full af sjálfstrausti og merkilegheitum, en ég byrjaði ekki að hugsa um hversu heppinn ég væri fyrr en hún var komin á bakið ofan á borðinu og hreyfði lappirnar eins og hún væri að synda baksund. Það skvettist nefnilega bjór yfir alla í kring, nema mig. Ég sat bara í hnipri á meðan hún danglaði glösum til hægri og vinstri við mig. Þá kom sem betur fer aðvífandi kvenkyns dyravörður og skakkaði leikinn. Ekki mundi ég vilja lenda í þessum dyraverði, sem gæti sómt sér vel við að pynta fanga í Abu Ghraib. En ekki leið á löngu fyrr en gjörningalistakonan fór að sletta skönkunum í allar áttir á ný, nú standandi upprétt. Í þetta skiptið stillti ég þeim bjórum sem voru fyrir framan mig upp á borðröndina fjærst mér. Greddudansinn endaði loks á því að hún féll kylliflöt yfir hóp af fólki svo lítil hrúga myndaðist á gólfinu. Upp úr hrúgunni skreið hún svo, ringluð með blóð lekandi úr hauskúpunni. Já, hvar væri maður ef ekki væri fyrir allt þetta skrítna fólk til að glápa á? Hér er ágætt myndaalbúm um Írakstengd málefni. Og svo bloggaði systir mín drukkin, það bara örlaði á einlægni! Gott framtak sem fleiri mættu stunda, áfengið getur svo oft brotið óþarfa yfirborðsskel sálartetursins og opnað fyrir flæði göfugra tilfinninga. Svo bendi ég á stórkostlega skemmtilega linka sem Petrakov býður uppá 23. Janúar; heimasíða Pútíns fyrir leikskólabörn. Svo er Petrakov sjálfur ekki svo galinn, kannski ekki allra.

Bloggsafn