2/07/2005

Jájá. Í morgun vaknaði ég eftir 12 tíma svefn með holdris sökum hlandóþols og gekk hausþungur inn á klósett. Þar náði ég að lyfta setunni og pissa. Ekki hélt ég um typpið á meðan, afþví ég er einstaklega hittinn maður. Fékk mér vatnssopa til hressingar og vonaði á leiðinni til baka, að ég mundi verða hress fljótlega og komast á ról. Það gekk ekki eftir, sobbnaði um leið og ég lagðist á ný, þrátt fyrir að hafa kveikt á lampa til að búa til meiri svona "það er kominn dagur" stemningu. En mig dreymdi mikla stórslysadrauma á skipum, bæði ryðdöllum og trillum sem brunuðu hvor framhjá öðrum, en líka í stórum járnrútum sem þeyttust eftir bröttum fjallvegum. Svo fékk ég gefins þrjár rúðuþurrkur. En hvað um það? Það var aldeilis gaman. Skrítnast fannst mér þó vera þetta drauminnskot; ég var að tala við einhvern og horfa á sjónvarp. Svo steig Ragnheiður Gröndal á svið, og ég fór að gráta. Svo steig hún burt, kom aftur og aftur fór ég að gráta beisklega. Svona yndislegum gráti. Gráti þar sem gleði heltekur manninn yfir því að hann sé tilfinningavera yfir höfuð. Þá sagði ég við sessunautinn "Þetta er svo fallegt. Ég fer alltaf að gráta þegar ég sé Ragnheiði Gröndal". Eitthvað tók ég að ranka við mér þremur tímum seinna, um tvö e.h. Þegar ég loks fór að hreyfa mig eins og snákur niður úr rúminu, löturhægt og varlega, nuddaði stírurnar þá fann ég!! Ég var með heimsins stærstu stírur. Alveg á við borgarísjaka, í því hlutfalli ef augun væru litlar tjarnir. Drykklöng stund fór í að toga stírurnar út úr augntóftunum, þær lágu svo djúpt. Lesandi góður hlustaðu nú vel á! Stírur eru einmitt storknuð tár, og bendir þetta eindregið til þess að ég hafi raunverulega grátið í svefni. Í draumi. En nú þykist ég heyra þig spyrja, kæri lesandi: "hvar voru rúðuþurrkarnar? Ha?" Það veit enginn. Hefði verið praktískara segi ég nú bara, mig vantar einmitt rúðuþurrkur á bílinn hennar Sollubollu. Tilviljun? Nei.
Blessuð dýrin! Ég sat í eldhúsinu um daginn og át súkkúlaðiköku. Þá kom til mín Hera og starði á. En hún er svo lítil og vitlaus, að hún prumpaði á meðan hún horfði á mig. Hún gerði það örugglega afþví hún var svo spennt. Spennt að fá súkkúlaðiköku! Svo ég benti með fingrinum að nefinu á henni, til að skamma hana fyrir þennan dónaskap að prumpa upphátt þegar einhver er að borða, en þá hélt hún að ég ætlaði að fara að gefa sér súkkúlaðiköku og spenntist meir, svo hún prumpaði meir! En vá hvað þetta var skrítið. Því Hera er svo roskin og viturleg, en prumpið hennar var skært og saklaust og ekkert líkt því hvernig hún lítur út. Mér fannst hún alltíeinu svo sæt með sinn gráa hökutopp að ég vildi láta hana vita hversu mikið dúlli dúll mér finnst hún vera. Augun í henni horfðu svo biðjandi og undirlát á mig, hún er ennþá með hvolpaaugu þó augnpokarnir séu signir. Ég hallaði mér að henni og ætlaði að segja "dzzu dzzu dzzu" en þá hélt hún í alvörunni að hún væri loksins að fá súkkúlaðiköku, kipptist til og prumpaði enn einusinni! Þetta fannst mér svo fyndið að ég datt hlæjandi af stólnum mínum og öll þessi prump voru löngu hætt að snúast um matarlyst. Blessuð sé Hera. Og svo er það auðvitað kötturinn Pavel. Blessaður sé hann. Kötturinn Pavel er kolsvartur með hvítan blett á bringunni. Hann hefur ákveðið að eyða lífi sínu með mér. Ég tók fyrst eftir honum í sumar, þar sem hann lá á gægjum úti í runna og fylgdist með mér slá hamri í nagla. Svo þegar kólna tók, læddist hann stundum inn í íbúðina mína. Ég var ekki par hrifinn, enda sýndist mér hann sífellt vera að pissa út um allt, og henti honum því öfugum út. En hann ER ekki að pissa, hann lætur bara skottið á sér titra mjög hratt alltaf þegar hann sér mig. Ég dreg því þá ályktun að hann hafi orðið ástfanginn af mér, þrátt fyrir illa meðferð mína á honum í fyrstu. Þar sannast hið ókveðna að "þeim unni ek mest er fór met mik sem verst". En kötturinn Pavel er gáfaður og vel upp alinn. Hann kann að banka, og hann kann að opna hurðir. Hann drekkur úr glösum: annaðhvort stingur hann annari loppunni ofaní og drekkur svo úr lófa sér, eða eins og ég varð einusinni vitni að, þegar hann drakk úr barmafullu glæru vatnsglasi, stakk hausnum ofan í það, lét tunguna út úr sér og lapti, nema hvað, tungan var svo löng að hún liðaðist alla leið niður á botn glassins og lagðist þar í stóra rósrauða spagettíhrúgu. Ég hélt mig væri að dreyma, en mig VAR ekki að dreyma afþví ég er að ljúga þessu. En það getur verið góður félagsskapur í köttum, sérstaklega ef maður er einmana. Mig grunar að gömul kona sem á heima hérna í næsta garði, eigi Pavel. Ætli hún sitji ekki hokin í baki, hérna hinumegin við vegginn, í íbúð sem er tvíburaíbúð íbúðarinnar minnar, ein, yfirgefin, döpur, jafnvel grátandi? Kannski fellur eitt saknaðartár niður skorpnaðan vanga hennar, afþví enginn heimsækir hana, hún er gleymd og ekki einusinni kötturinn sem hún tók að sér af einskærri góðvild nennir að hanga með henni. Pavel litli skreppur bara til hennar í mat, en finnst kellingin svo óspennandi að hann kemur strax aftur til mín. Ætli ætli gamla konan bíti ekki í sína ódýru síld og hlusti á veðurfregnir. Ætli hún líti ekki í spegil og sjái engan tilgang í að plokka hvít hár framan úr andlitinu? Og stynur kannski yfir því að fá engan alminnilegan morgunmat, afþví nágrannarnir geta ekki passað upp á svarta heimska labradorhundinn, sem stelur stundum matnum sem heimilishjálpin skilur eftir fyrir utan útidyrahurðina. Á meðan sit ég, ungur og fallegur með ástfanginn kött í fanginu, fullur tilhlökkunar yfir lífinu. Horfi grátandi á Jay Leno og borða pizzu. Mér líður svolítið eins og Jolene í laginu hennar Dolly Parton.

Bloggsafn